SFS_Arsskyrsla2019_DSF1870_aRGB.jpg

Umhverfismál

Stefna sjávarútvegs í samfélagsábyrgð

Stórt skref var stigið í íslenskum sjávarútvegi árið 2020, þegar unnið var að og samþykkt stefna sjávarútvegs í samfélagsábyrgð. Þar skipa umhverfis-og loftslagsmál stóran sess. Íslenskur sjávarútvegur vill vera hluti af nauðsynlegum úrbótum í loftslagsmálum enda er staða loftslagsmála ógn við lífríki á norðurslóðum og um allan heim. Fjölmörg íslensk sjávarútvegsfyrirtæki undirrituðu stefnuna í lok síðasta árs sem grundvallast á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Loftslagsmál eru sjávarútvegi mikilvæg, eins og öllum öðrum sem þrífast á jörðinni. Breytingar í sjávarútvegi af náttúrulegum völdum eru ekki nýlunda. Fiskistofnar færa sig á milli svæða, tegundir koma og fara. Þegar við bætast breytingar á náttúrunni af manna völdum geta þær haft áhrif á fiskistofna. Nefna má augljós dæmi, eins og plast í hafi og súrnun sjávar.

Súrnun sjávar er ein alvarlegasta ógn sem stafar að heimshöfunum. Súrnunin er til þess fallin að breyta samsetningu tegunda í hafinu í kringum Ísland og áhrifin af því eru ófyrirsjáanleg. Það er að sjálfsögðu ekki sjávarútvegsins eins, að bæta hér úr, en hann mun leita allra leiða til að grípa til þeirra aðgerða er mega að gagni koma til að draga úr útblæstri.

Samtal við samfélagið

Pólitísk óvissa í kringum greinina er einnig viðvarandi, en það væri mjög gagnlegt að reynt yrði að draga úr henni og ná ákveðinni festu í stjórn fiskveiða og viðhorfi til greinarinnar. Fyrirtæki í sjávarútvegi verða hins vegar að hegða sér með forsvaranlegum hætti og draga þannig úr hinum pólitíska óróleika. Liður í þeirri viðleitni sjávarútvegsins var að marka sér stefnu í samfélagsábyrgð. En til hvers að setja stefnu, kann einhver að spyrja? Því er auðsvarað. Þegar unnið er að ákveðnum markmiðum verður maður að vita hvaða verkfæri ber að nota til að ná þeim. Hér gildir því að framkvæma með markvissum hætti en ekki gera bara eitthvað. Við hófum vinnuna á því að halda fjóra opna fundi á Messanum á Granda í byrjun árs 2020. Þangað mættu nokkur hundruð manns; reyndar var fjórði og síðasti fundurinn á netinu vegna COVID-19. Svo héldum við vinnustofu með félagsmönnum og fórum um landið, ræddum við félagsmenn og fengum ábendingar um það sem betur mætti fara. Stefnan er því afrakstur mikillar vinnu, mjög margra. Grunngildin í samfélagsstefnu sjávarútvegsins eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 14 (Líf í hafi) og 9 (Nýsköpun og uppbygging). Nánar um stefnuna og þau sjávarútvegsfélög sem hafa undirritað hana má sjá hér.

SFSDagur2-38.jpg

Gengið vel - gerum meira

Íslenskur sjávarútvegur hefur náð mjög góðum árangri í að draga úr sótspori sínu. Og reyndar er það þannig að sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin hér á landi sem hefur náð raunverulegum árangri í samdrætti. En það verður að horfa fram á veg og gera meira og nú þegar hafa fjölmörg fyrirtæki hafið sína vegferð á grundvelli þess sem samfélagsstefna sjávarútvegs byggist á. Sjávarútvegurinn hyggst lágmarka sótspor sitt enn frekar með því að mæla það, draga úr losun og jafna og binda kolefni. Þá verður leitað allra leiða til að draga úr notkun með því að notast við nýjustu tækni, bæði í veiðum og vélbúnaði og auka notkun á raunhæfum vistvænum orkugjöfum. Svo má nefna að til mikils er að vinna með því að skipta út eldri tegundum af kælimiðlum fyrir nýrri og vistvænni. Öll viðleitni sjávarútvegsins til að draga úr umhverfisáhrifum hans, snýst að miklu leyti um fjárfestingar í nýjum skipum og búnaði.

Umhverfi_69.jpg

Hvað tekur við?

Umræða um orkuskipti er nokkuð hávær og langtímaorkustefna Íslands, sem gefin var út í lok árs 2020, miðar að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050. Hvernig blasir það við í atvinnugrein sem í dag er svo háð jarðefnaeldsneyti? Rannsóknir sem gerðar hafa verið hingað til benda til þess að ekkert augljóst eldsneyti geti leyst skipaeldsneyti af hólmi. Það útilokar þó ekki að orkuskipti, að einhverju marki, geti átt sér stað í sjávarútvegi. Tækninni fleygir fram og stór skipafélög úti í heimi, til dæmis Mærsk, hafa nú þegar tilkynnt hvaða eldsneyti þau hyggjast nota. En allar leiðir til orkuskipta í dag fela í sér óvissu í tækni, öryggi, framboði og innviðum.

Undirritun loftslagsmál

Sex ráðherrar á sumardegi

Íslenskur sjávarútvegur er tilbúinn í vegferð til kolefnishlutleysis en slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Það verður því áhugavert að fylgjast með hvernig stjórnvöld ætla að fylgja eftir háleitum markmiðum sínum. Vonandi í góðu samstarfi við atvinnulífið. Því, eins og stjórnvöld hafa sjálf lýst yfir, þá verður þessi slagur ekki unninn nema í samstarfi og undir það skal tekið. Segja má að sjávarútvegurinn hafi lagt upp í þá vegferð með stjórnvöldum sumarið 2020 þegar sex ráðherrar og forsvarsmenn SFS undirrituðu yfirlýsingu um hvata til að draga úr kolefnisspori íslensks sjávarútvegs. Haft var eftir Ólafi Marteinssyni, formanni SFS, í fréttatilkynningu: „Það er mjög ánægjulegt að stjórnvöld hafi ákveðið að taka höndum saman við sjávarútveginn um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég er raunar sannfærður um að með góðu samstarfi atvinnugreinarinnar og stjórnvalda verði stærstu framfaraskrefin stigin í þessum efnum. Íslenskur sjávarútvegur hefur náð markverðum árangri í að minnka kolefnisspor sitt, en frá árinu 2005 hefur orðið 41% samdráttur í olíunotkun í sjávarútvegi.“

Hafið.jpg

Þótt að þarna hafi verið stigið stórt og merkilegt skref, hefur heldur minna orðið úr en nauðsyn ber til. Stjórnvöld hafa ekki enn dregið skýrar línur um hvernig þau hyggjast haga þessu samstarfi. Og er það miður, því góður hugur fylgdi málinu og tækifærin eru mörg. Sjávarútvegurinn er fyrir sitt leyti tilbúinn í slaginn en til að svo megi verða þurfa stjórnvöld að draga upp leiðarvísi. Þar skiptir mestu að liðkað verði fyrir aðgerðum sem sjávarútvegurinn getur nú þegar gripið til og myndu strax skila sér í umtalsverðum ávinningi. Þar til aðgerðir stjórnvalda liggja fyrir mun sjávarútvegurinn gera það sem hann hefur verið að gera og er að gera; róa að því öllum árum að draga úr umhverfisáhrifum af starfseminni. Þar kemur stefna í samfélagsábyrgð að góðum notum.