Heiðrún_mynd.JPG

Ávarp framkvæmdastjóra

Erfitt ár – öflugar stoðir

Fljótlegast væri að skrifa um árið í fyrra á þann veg að segja takk fyrir komuna og komdu aldrei aftur. En það er ekki hægt, árin koma, öll jafnlöng, nema hlaupár sé. Þegar fram líða stundir og þeir spurðir sem árið muna, hvernig það hafi verið, munu fæstir segja að árið sé minnisstæðast fyrir það hvað sjávarútvegurinn spjaraði sig vel á mjög erfiðum tíma. Enda kannski ekki nema von, sjávarútvegur á Íslandi er oft tekinn sem gefin stærð, sem ætíð skilar sínu og óþarft að hafa um hann mörg orð. Það er þetta áhugaleysi á framúrskarandi atvinnugrein sem mig langar að staldra við í upphafi. Þó er áhugaleysið ekki með öllu rétt lýsing, því ýmsir hafa á útveginum skoðun þegar kemur að skattlagningunni. Hún virðist raska margra ró.

Þegar fyrirséð var í mars í fyrra að veiran myndi valda verulegum vandræðum skrikaði efnahagslífi hér á landi fótur. Nánast allt varð erfiðara og nærtækast að nefna ferðaþjónustu sem staðfestingu á því. Fjölmörg önnur fyrirtæki lentu í vandræðum og atvinnuleysi rauk upp á skömmum tíma. Það er óþarfi að rifja hér upp hvað gerðist og hvenær, en í stuttu máli stoppaði nánast allt eins og hendi væri veifað. Varla bíll á götunum. Eitt var hins vegar ljóst í hugum þeirra sem starfa í sjávarútvegi og fiskeldi; fólk vill fisk á sinn disk, með einum eða öðrum hætti.

Skjótt brugðist við

Strax var hafist handa við að finna leiðir til að afsetja afurðir, frysta meira, breyta framboði í samræmi við nýjan veruleika, veiða minna, tryggja dreifileiðir og í raun var allt gert sem hægt var til þess að tryggja nægt framboð á sama tíma og tekist var á við vandann innan fyrirtækjanna. Og hvernig tókst það? Það tókst eins vel og hægt var að ætlast til. Og af hverju? Vegna þess að sjávarútvegur á Íslandi hefur í áranna rás þurft að takast reglulega á við hindranir og vandamál. Hann hefur jafnan leyst úr þeim með traustum og forsvaranlegum hætti.

Enn og aftur kom í ljós að það kerfi sem við búum við, er eitt besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Sveigjanleiki kerfisins, ásamt útsjónarsemi stjórnenda og dugnaði starfsfólks íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til sjós og lands, tryggðu þessa niðurstöðu. Og sem betur fer sáu stjórnvöld mikilvægi þess að halda sjávarútveginum gangandi á krefjandi tímum. Kom í ljós í lok árs að sjávarútvegur og eldi voru tæplega helmingur af vöruútflutningi landsins. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá að eldið eflist og dafnar með hverju misseri. Er nú svo komið að útflutningsverðmæti þess er um 30 milljarðar króna, sem gera um 11% af heildarútflutningsverðmætum sjávarafurða og útflutningur á eldislaxi skilar næst mestum útflutningsverðmætum af öllum þeim fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi.

Austurland_brunnbátur.jpg

Það eru blessunarlega fleiri en ég sem sjá sjávarútveg sem grunnstoð efnahagslegrar hagsældar á Íslandi. Ásgeir Jónson seðlabankastjóri hélt erindi á Sjávarútvegsdeginum árið 2018. Þá var hann deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands og erindið fjallaði um hlutverk sjávarútvegs á nýrri öld. Hann sagði sjávarútveginn hafa verið aflvaka stöðugleika í íslensku hagkerfi í aldarfjórðung. Og að greinin hefði veitt mikilvægan stuðning í tveimur síðustu niðursveiflum, árin 2001 og 2008, „ ... þegar landsmenn hafa verið að prófa sig áfram með nýjar atvinnugreinar.“ Svo bætti hann við: „Svo mun einnig vera í næstu niðursveiflu!“ Seðlabankastjóri reyndist sannspár, því sú niðursveifla hófst í fyrra og sér ekki alveg fyrir endann á henni.

Fagurt er landið í fári sjávar

Svo sögðu menn í eina tíð þegar þeir nálguðust land eftir erfiðan róður. Róðurinn var þungur í fyrra en honum var hagað að skynsemi af þeim sem undir árunum sátu; það eru þeir sem yrkja hina bláu akra og draga björg í bú. Þegar litið er til baka úr lendingunni, út á hið úfna haf, væri óráð að segja að þetta hefði ekki verið neitt mál. Og enginn hefði efast; slíkt dramb er falli næst. Fyrirtæki innan okkar raða, sjávarútvegur og eldi, tóku af æðruleysi mót þeim hindrunum sem á vegi þeirra urðu. Fyrirtækin og frábærir starfsmenn þeirra, gerðu það besta í snúinni stöðu. Við stóðum okkur í erfiðu árferði og af því eigum við að vera stolt.

Öflugur sjávarútvegur er drifkraftur nýsköpunar

Þá komum við að því sem minnst var á hér að framan. Áhugaleysi á sjávarútvegi almennt. Stjórnmálamenn virðast margir eiga erfitt með að tala máli sjávarútvegsins, hvað þá að þeir dragi athyglina að öllu því sem þrífst í skjóli hans, eins og hátæknifyrirtækjum og iðnfyrirtækjum hverskonar. Þær greinar velta milljörðum á ári hverju, flytja út tækni og lausnir og bjóða vel launuð störf fyrir fólk með bæði menntun og einstaka hæfileika. Talsmenn þessara fyrirtækja hafa sagt að samspilið og samvinna við sjávarútvegsfyrirtæki hafi skipt sköpum í rekstri þeirra. Þetta er nýsköpun á vettvangi sem Íslendingar þekkja þjóða best. Það er oft eins og nýsköpun í hugum margra sé eingöngu það sem sé algerlega nýtt og hefur aldrei verið reynt áður. Slíkt liggur kannski í orðinu, en í mínum huga er nýsköpun ekki síður að gera þá hluti betur sem við nú þegar höfum sæmileg tök á. Það eru til dæmis engin fyrirtæki í heiminum sem eru fremri í að hanna og smíða vél sem flakar fisk eða roðflettir, svo dæmi séu tekin.

Marel.jpg

Mynd: Marel hf.

Þessi tækni byggist á gervigreind sem mikið er talað um, um þessar mundir. Lifandi dæmi í þessa veru eru meðal annars Valka, Skaginn 3X, Curio og Marel. Á liðnu ári sameinaðist Skaginn 3X stórfyrirtækinu Baader í Þýskalandi. Þegar tilkynnt var um sameininguna kom fram að það „… fel­ast í þessu tæki­færi til að stór­efla rann­sókna- og þró­un­ar­starf til hags­bóta fyr­ir starfs­fólk og ís­lenskt sam­fé­lag.“ Það er að sjálfsögðu von mín að frumkvöðlastarf og nýsköpun verði fyrirferðarmikil í íslensku þjóðlífi og efnahag. Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta, að á sviði nýsköpunar í sjávarútvegi erum við í sérflokki. Með því að hlúa að sjávarútvegi er því verið að styðja við og styrkja nýsköpun. Ég vona að fólk geri sér grein fyrir þeim miklu tækifærum sem við eigum á þessum vettvangi. En til þess að gera sér grein fyrir samhenginu þarf að sýna atvinnugreininni áhuga og þora að gleðjast þegar vel gengur.

Margur hyggur auð í annars garði

Sem fyrr hafa verið nokkrar umræður um veiðigjaldið. Annað er óhjákvæmilegt þegar takmörkuð auðlind er nýtt og þannig verður það alltaf. Í þeirri umræðu hlýtur þó grundvallarspurningin alltaf fyrst að vera sú, hvað viljum við að sjávarútvegurinn sé í efnahagslegri velferð þjóðar? Á umliðnum árum má áætla að skattaspor sjávarútvegs hafi verið um 65-70 milljarðar ár hvert. Af umræðu mætti hins vegar ráða að eina framlag sjávarútvegs til samfélagsins felist í veiðigjaldi – og það ekki nægilega háu. Mörgum virðist þannig hulið hvar verðmæti þjóðar liggur í sjávarútvegi. Sjávarútvegur gerir samfélaginu mest gagn ef fyrirtæki innan hans eru hagkvæm, skilvirk og rekin af ábyrgð. Aðeins þannig er hægt að tryggja að verðmæti auðlindarinnar verði hámörkuð fyrir þjóðarhag til lengri tíma.

Erling Aðalsteinsson

Forræði á auðlindinni

Sterk sjávarútvegsfyrirtæki víða um land eru hornsteinn í héraði. Til eru þeir sem vilja breyta grunnstoðum fiskveiðistjórnunarkerfisins og efna til uppboða á aflaheimildum, án þess að víkja einu orði að augljósum afleiðingum þeirra, stóru fyrirtækin yrðu stærri, hin minni hyrfu. Efast má um gagnsemi þess fyrir hina dreifðari byggðir víða um land. Þeir sem ákafast tala fyrir uppboði vilja svo ganga í Evrópusambandið í framhaldinu. Við það myndu Íslendinga missa forræði á sjávarauðlindinni. Vald yfir sjávarauðlindinni yrði framselt til Brussel og heimild til að veiða innan lögsögu Íslands hefðu þá sjávarútvegsfyrirtæki annarra þjóða sambandsins. Mikilvægasta náttúruauðlind Íslendinga yrði auðlind Evrópusambandsins. Við inngöngu í ESB væri tómt mál að tala um að skattleggja íslenskan sjávarútveg sérstaklega eins og nú er gert. Úr hinni sameiginlegu auðlind þjóðarinnar tækju skip allra þjóða ESB og afli færi á land þar sem hinum erlendu skipum best hentaði. Þetta eru einfaldar staðreyndir sem óþarfi er að deila um. Þá verður ekki fram hjá því litið í þessu samhengi að sjávarútvegur innan EBS er ríkisstyrktur. Þar er hvorki fyrir að fara myndarlegu skattaspori né sérstöku auðlindagjaldi. Stjórn á fiskveiðum innan ESB hefur jafnframt lengi verið í molum og lítið sem ekkert hefur gengið við að bæta úr. Það er einfaldlega tómt mál að tala fyrir uppboði aflaheimilda einn dag, en þann næsta berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þetta tvennt er einfaldlega ósamrýmanlegt.

Framsýni er flasi betri

Undirstöður framtíðar byggja að nokkru leyti á ákvörðunum sem teknar eru í dag. Ef við lítum til dæmis nokkur ár aftur í tímann og skoðum til hvaða aðgerða var gripið á sínum tíma til þess að vernda og styrkja þorskstofninn, kemur í ljós að framsýni réð þar miklu. Við lok fyrsta áratugar aldarinnar voru gerðar breytingar á aflareglu sem skiluðu viðvarandi aukningu í áratug. Við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir því sem gera þarf til þess að treysta fiskistofna við Ísland. Það er ekki einfalt mál en með því að styðjast við bestu fáanlegu vísindagögn og reynslu þeirra sem nýta auðlindina má fá nokkuð gagnlega mynd af því sem er að gerast í hafinu í kringum okkur. Á þessum gögnum verðum við að grundvalla ákvarðanir okkar. Við eigum í glímu við náttúruna og á henni höfum við takmarkað vald og við eigum ekki að auka á þá óvissu með mannlegri breytni og sífelldum hótunum um stórfelldar breytingar á fyrirkomulagi fiskveiða. Það væri kærkomin tilbreyting að stjórnmálamenn geri sér almennilega grein fyrir margbreytileika sjávarútvegsins og hvað þarf virkilega til að hann standist harða alþjóðlega samkeppni. Missi Íslendingar fótfestu á þeim markaði verður hún trauðla unnin til baka. Það verður allra tap.