DSC00188.JPG

Efnahagsmál

Gangurinn í sjávarútvegi framar vonum

Árið 2020 gekk ekki áfallalaust í sjávarútvegi. Loðnubrestur annað árið í röð var verulega þungt högg fyrir mörg sjávarútvegsfyrirtæki með tilheyrandi tekjutapi og afleiddum áhrifum. Að loðnubresti undanskildum, var ágætis gangur í sjávarútvegi þar til áhrifa COVID-19 fór að gæta. Slæmt tíðarfar í upphafi árs torveldaði þó veiðar, en á heildina litið gekk framleiðslan ágætlega og ástandið á mörkuðum var almennt gott.

Staðan á mörkuðum umturnaðist á örskömmum tíma um miðjan mars þegar COVID-19 náði sér á strik, enda verður höggið þungt á eftirspurn þegar stór hluti jarðarbúa sætir útgöngubanni og vinnustöðum og landamærum er víða lokað. Ofan á það raskaði þetta ástand verulega flutningsleiðum, sér í lagi með flugi en einnig sjó- og landleiðinni. Það leiddi til aukins kostnaðar fyrirtækja vegna flutninga á sama tíma og þrýstingur tók að myndast á verðlækkun afurða. Því er ljóst að sjávarútvegur fór ekki varhluta af ástandinu í heimsbúskapnum vegna COVID-19 og tilheyrandi sóttvarnaraðgerða. Á heildina litið var ástandið þó bærilegra en í mörgum öðrum atvinnugreinum. Í því samhengi hefur það vissulega áhrif að fólk þarf að borða, sama hvernig allt í veröldinni veltist. Það er þó fjarri því sjálfgefið að hægt sé að veiða, vinna og koma afurðum á markað í árferði sem þessu, til þess þarf þekkingu, þrautseigju og áræðni.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða eftir tegundaflokkum

Í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2020*

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
*Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavog þröng.

Aukning í krónum, samdráttur í erlendri mynt

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 270 milljörðum króna á árinu 2020 og jókst um 10 milljarða frá fyrra ári. Jafngildir það aukningu upp á tæp 4% í krónum talið. Aukningin skrifast öll á þá 10% lækkun sem varð á gengi krónunnar, enda dróst útflutningsverðmæti sjávarafurða saman um tæp 7% í erlendri mynt. Samdráttinn má helst rekja til rúmlega 4% samdráttar í útfluttu magni, sem má hvort tveggja rekja til COVID-19 og tilheyrandi sóttvarnaraðgerða og svo loðnubrests. Erfitt er að festa fingur á hversu mikil áhrifin af COVID-19 voru, en óhætt er að fullyrða að þau hafi verið veruleg. Áhrifin af loðnubresti voru talsverð, sem kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir þar sem loðnubrestur varð annað árið í röð. Ástæða þess er að talsvert hafði verið um birgðasölu á árinu 2019, sér í lagi á frystum loðnuhrognum. Þess ber að geta að sú magnbreyting sem hér er vitnað til er ekki sú sama og breyting á útfluttum afurðum í tonnum talið. Sjávarafurðir eru afar fjölbreyttar og misverðmætar og samsetning þeirra í útflutningi er mismunandi á milli ára. Magnbreyting sem hér er fjallað um tekur tillit til þess.

Ofangreindan samdrátt á útflutningsverðmætum sjávarafurða í erlendri mynt, má einnig rekja til þess að verð á sjávarafurðum lækkaði um rúmlega 2% í erlendri mynt á árinu 2020 frá fyrra ári. Það má vitaskuld rekja til aðstæðna á mörkuðum sem versnuðu til muna vegna COVID-19 og áhrif þess á heimsbúskapinn. Sú lækkun er vissulega ekki ýkja mikil þegar litið er á árið í heild miðað við ástandið, en áður en COVID-19 skall á hafði átt sér stað talsverð verðhækkun sem hefur áhrif á meðalverð á árinu. Sveiflur innan ársins voru því mun meiri og er hér nærtækast að nefna þá breytingu sem varð á árstakti verðvísitölu sjávarafurða sem Hagstofan birtir mánaðarlega. Í janúar 2020 sýndi tólf mánaða taktur verðvísitölunnar tæplega 9% hækkun á sjávarafurðum í erlendri mynt, en í desember var hann kominn niður í tæp 8% lækkun..

Útflutningsverðmæti sjávarafurða

Breyting undirliða milli ára (%)

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
* M.v. gengisvísitölu Seðlabankans, þegar hún hækkar er krónan að veikjast og öfugt.

Gengi krónunnar ekki veikara í 5 ár

Snörp lækkun varð á gengi krónunnar í mars þegar faraldurinn barst til landsins, með tilheyrandi áhrifum á efnahagslífið. Gengið hækkaði á ný þegar leið á maí í kjölfar þess að ágætlega hafði tekist til við að kveða niður fyrstu bylgju faraldursins og aukinnar bjartsýni fór að gæta um fjölgun á ferðamönnum til landsins. Sú hækkun gekk þó fljótlega til baka snemma í júní og þrýstingur jókst á ný til lækkunar á gengi krónunnar. Það mátti meðal annars rekja til þess að erlendir aðilar seldu ríkisskuldabréf í vaxandi mæli og fluttu féð úr landi, lífeyrissjóðir hófu að auka kaup sín á erlendum eignum í ágúst og lítið innflæði var á gjaldeyri. Þessi þrýstingur stóð yfir þangað til í september þegar Seðlabankinn tilkynnti að hann myndi hefja reglubundna sölu á gjaldeyri til að auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins og bæta verðmyndun á markaði.

Var gengi krónunnar að jafnaði um 10% veikara á árinu 2020 en árið 2019 gagnvart helstu viðskiptamyntum. Þetta var jafnframt þriðja árið í röð sem þróunin á gengi krónunnar er í þá átt og hefur það ekki verið veikara frá árinu 2015. Lækkun á gengi krónunnar styður vissulega við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja, líkt og annarra útflutningsgreina. Áhrifin af lækkuninni eru þó ekki bara á einn veg í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, enda hefur það áhrif á ýmsa þætti í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Það hækkar eðlilega verð á innfluttum aðföngum, eins og olíu, varahlutum, umbúðum og flutningur verður dýrari. Veikara gengi krónunnar hækkar einnig skuldir fyrirtækja, í krónum talið, sem eru með lán í erlendri mynt. Launakerfi sjómanna byggist jafnframt á hlutaskiptakerfi, þannig að laun þeirra sveiflast með gengi krónunnar og er ákveðin gengisvörn fólgin í því. Annað gildir um laun í landi, eins og í fiskvinnslu, en samkeppnishæfni sjávarútvegs á því sviði batnar við lækkun á gengi krónunnar. En nánari umfjöllun um launamál er síðar í þessum kafla.

Gengisvísitala krónunnar

Viðskiptavog þröng

Heimild: Seðlabanki Íslands

Vægi þorskafurða stóreykst

Útflutningsverðmæti botn- og flatfiskafurða nam tæplega 207 milljörðum króna á árinu 2020. Það er um 9% aukning í krónum talið frá árinu á undan. Sú aukning skrifast alfarið á þá lækkun sem varð á gengi krónunnar, enda dróst útflutningsverðmæti afurðanna saman um tæp 2% á milli ára í erlendri mynt. Samdráttinn má alfarið rekja til rúmlega 2% lækkunar á afurðaverði í erlendri mynt en magn útfluttra afurða stóð svo til í stað. Miðað við efnahagsástandið á árinu 2020 virðist 2% lækkun á afurðaverði ekki mikil. Innan ársins voru þó verulegar sviptingar, en fyrir COVID-19 hafði verð á botn- og flatfiskafurðum hækkað talsvert og þá um nokkurt skeið, sem eðlilega hefur áhrif á meðalverðið á árinu.

Þær 5 tegundir botn- og flatfiska sem eru fyrirferðarmestar í útflutningi sjávarafurða eru þorskur, ýsa, ufsi, karfi, og grálúða. Þar er þorskurinn efstur á lista, en hlutdeild þorskafurða í útflutningsverðmæti botn- og flatfiskafurða var um 64% á árinu 2020. Hefur hlutdeild þorskafurða ekki mælst hærri frá árinu 1987. Hið sama gildir um vægi þeirra í útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild, en þar var hlutfallið 49%. Vissulega hefur framboð á öðrum tegundum áhrif á vægi þorsks, eins og loðnu þar sem brestur varð annað árið í röð. Þó liggur ein stærsta ástæðan fyrir auknu vægi þorskafurða á undanförnum árum í aukningu á aflamarki þorsks. Þá þróun má ekki síst þakka vel heppnaðri breytingu á nýtingarstefnu og aflareglu þorskveiða á árunum 2007-2009. Önnur ástæða, sem er einnig afar mikilvæg, er breyting á vinnsluháttum. Þannig hefur verið meiri breyting á hlutdeild þorsks í útflutningsverðmæti en í útfluttu magni. Það má rekja til þess að mun stærri hluti þorskaflans fer í ferskvinnslu en áður, sem gefur af sér meiri verðmæti en önnur vinnsla. Hér ber vitaskuld að halda til haga að kostnaðurinn við að vinna ferskar þorskafurðir er talsvert meiri en annarra afurða. Vegna þess hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ráðist í verulegar fjárfestingar í hátæknibúnaði fyrir vinnslu og kælingu, og er ljóst að sú fjárfesting er að skila sér í aukinni verðmætasköpun.

Útflutningsverðmæti þorskafurða eftir vinnslu

Í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2020*

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
* M.v. gengisvísitölu Seðlabankans, þegar hún hækkar er krónan að veikjast og öfugt.

Útflutningsverðmæti þorskafurða nam um 132 milljörðum króna á árinu 2020, sem er rétt rúmlega 1% aukning í erlendri mynt frá fyrra ári. Meiri aukning varð á útfluttum tonnum, eða sem nemur um 6%. Ástæða þessa mismunar er meðal annars lækkun á afurðaverði og breyting á vinnsluháttum vegna COVID-19, enda verða verulegar sviptingar á eftirspurnarhliðinni þegar veitingahúsum og hótelum er skellt í lás víða um lönd. Faraldurinn hafði vitaskuld áhrif á allar botn- og flatfisktegundir á árinu, en áhrifin voru mismikil. Af helstu tegundum botn- og flatfiska var samdrátturinn einna mestur í útflutningi á ufsa, en hann fer mikið til hótela og veitingahúsa. Þar varð jafnframt töluvert meiri samdráttur á milli ára í útflutningsverðmætum en útfluttum tonnum, eða um 26% á móti 17%. Svipaða sögu er að segja af grálúðu, en útflutningsverðmæti hennar dróst saman um 7% á milli ára í erlendri mynt á sama tíma og útflutt magn jókst um tæp 3%. Útflutningsverðmæti karfa dróst svo saman um 15% á milli ára í erlendri mynt en útflutt tonn um tæp 13%. Að lokum má nefna ýsuna sem vóg næstmest í útflutningsverðmætum botn- og flatfiskafurða á árinu, eða tæp 10%. Í erlendri mynt dróst útflutningsverðmæti ýsuafurða saman um rúm 2% á milli ára en í tonnum var samdráttur upp á tæp 3%. Var því munurinn þar á milli minni en í öðrum helstu tegundum.

Útflutningsverðmæti botn- og flatfiskafurða

Í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2020*

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
*Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavog þröng.

Áhrif loðnubrests blasa við

Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða nam rétt rúmlega 46 milljörðum króna á árinu 2020 og dróst saman um 10% í krónum talið frá fyrra ári. Vegna lækkunar á gengi krónunnar á árinu var samdrátturinn talsvert meiri í erlendri mynt, eða um 19%. Samdráttinn má að langmestu leyti rekja til tæplega 17% samdráttar í útfluttu magni, en þar að auki var afurðaverð að jafnaði um 3% lægra á árinu en árið 2019 í erlendri mynt.

Þær 4 tegundir uppsjávarfiska sem eru fyrirferðarmestar í útflutningsverðmætum sjávarafurða eru síld, loðna, kolmunni og makríll. Vægi þeirra er þó afar mismunandi á milli ára og tímabila enda eru miklar sveiflur í aflabrögðum einstakra tegunda uppsjávarfiska. Í ofangreindum samdrætti uppsjávarafurða á milli ára skýrir loðnubrestur stærsta hlutann, bæði hvað varðar útflutt verðmæti og magn. Eins og fyrr segir, þá var talsverð sala á loðnubirgðum á árinu 2019, sér í lagi á frystum hrognum, sem vógu nokkuð drjúgt í útflutningsverðmætum uppsjávarafurða á því ári. Eðlilega var birgðasalan margfalt minni á árinu 2020, enda frystigeymslur að tæmast. Hér ber þó að halda til haga að útflutningstölur fyrir tiltekið ár endurspegla ekki að fullu það sem flutt var út á árinu. Hluti af afurðunum kann að hafa verið fluttur út fyrir einhverju síðan en tafir geta verið á gögnum. Slíkur tímamismunur er algengari vegna gagna um uppsjávarafurðir en aðrar sjávarafurðir.

Alls nam útflutningsverðmæti loðnuafurða tæplega 3 milljörðum króna á árinu 2020, sem er um 71% samdráttur á milli ára í erlendri mynt. Útflutningsverðmæti makríls námu rúmlega 18 milljörðum króna á árinu og drógust saman um rúm 14% á milli ára í erlendri mynt. Þrátt fyrir þennan samdrátt vóg hann mest allra tegunda uppsjávarafurða í útflutningsverðmætum, annað árið í röð. Útflutningsverðmæti síldarafurða námu rúmum 14 milljörðum króna á árinu og stóðu nánast í stað í erlendri mynt. Að lokum má nefna að útflutningsverðmæti kolmunna námu tæpum 11 milljörðum króna og drógust saman um rúm 11% á milli ára í erlendri mynt.

Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða

Í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2020*

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
*Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavog þröng.

Sveigjanleiki eykst með fleiri mörkuðum

Áhersla sjávarútvegsfyrirtækja á að sækja á fleiri og ólíka markaði hefur aukið á sveigjanleika í sjávarútvegi, sem er mikill kostur og sér í lagi í ástandi eins og upp kom í heimsbúskapnum á árinu 2020. Þegar illa árar í einu landi, vegna efnahagslegra eða pólitískra þrenginga, er hægara um vik að bregðast við og leita annað þegar viðskiptasambönd liggja víðar. Hið sama má segja þegar heimsfaraldur ríður yfir enda var vöxtur faraldursins og áhrif hans, með tilheyrandi sóttvarnaraðgerðum, afar mismunandi á milli landa.

Bretland er og hefur verið stærsta viðskiptaland Íslendinga með sjávarafurðir, þótt hlutdeild þess sé ekki nærri eins afgerandi og á árum áður. Þangað fer langmest af frystum botnfiskafurðum og er þorskurinn þar fremstur í flokki. Á árinu 2020 voru fluttar út sjávarafurðir fyrir tæpa 46 milljarða króna til Bretlands, sem nemur um 18% af útflutningsverðmætum sjávarafurða alls. Afar lítil breyting varð á verðmæti útfluttra sjávarafurða til Bretlands á milli ára á föstu gengi. Fimmta árið í röð var Frakkland annað stærsta viðskiptalandið fyrir íslenskar sjávarafurðir en franski markaðurinn hefur orðið sífellt mikilvægari undanfarinn áratug. Það kemur heim og saman við þá miklu aukningu sem orðið hefur á framleiðslu á ferskum botnfiskafurðum, en þar er Frakkland helsta viðskiptaland Íslendinga. Alls voru fluttar út sjávarafurðir fyrir rúma 36 milljarða króna til Frakklands á árinu 2020, sem er rúmlega 2% aukning á milli ára á föstu gengi. Hlutdeild franska markaðarins í útflutningsverðmæti sjávarafurða alls var rúm 13% á árinu 2020 og hefur aldrei verið hærra.

Ferskar afurðir eru að mestu leyti fluttar með skipum til Frakklands en til Bandaríkjanna eru þær að langstærstum hluta fluttar með flugi. Það hefur vafalaust sett strik í reikninginn vegna útflutnings til Bandaríkjanna í fyrra, enda urðu meiri raskanir á flugi en siglingum í heimsfaraldrinum. Alls voru fluttar út sjávarafurðir til Bandaríkjanna fyrir rúma 23 milljarða króna á árinu 2020, sem er um 9% samdráttur á milli ára á föstu gengi. Engu að síður voru Bandaríkin þriðja stærsta viðskiptaland Íslendinga fyrir sjávarafurðir á árinu 2020, annað árið í röð. Bandaríski markaðurinn hefur einnig verið í verulegri sókn síðasta áratuginn og ein meginástæðan er aukin ferskfiskvinnsla.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá 13 stærstu viðskiptalönd fyrir íslenskar sjávarafurðir á öðrum áratug þessarar aldar, miðað við útflutningsverðmæti. Um 80% sjávarafurða voru flutt til þessara landa á árinu 2020 miðað við verðmæti. Af þessum 13 löndum jukust útflutningsverðmæti sjávarafurða til Hollands mest á árinu 2020, eða um tæp 11% á föstu gengi frá fyrra ári. Vafalaust tengist það COVID-19 og áhrifum þess á flutninga á milli landa, en Holland er sjaldan endastöð, því algengt er að afurðum sem þangað eru fluttar sé umskipað og þær fluttar annað. Af þeim sökum getur útflutningur til annarra landa hafa verið meiri en tölur Hagstofunnar segja til um. Breyting á framboði á einstaka tegundum hefur einnig talsverð áhrif á hlutdeild einstakra viðskiptalanda með sjávarafurðir, eins og atvikaðist með Kína á árunum 2019 og 2020. Þar gætir meðal annars áhrifa loðnubrests og þar með minna framboðs á loðnuafurðum. Áhrif loðnubrests eru þó einna mest áberandi á hlutdeild Japans, sem er stærsta viðskiptaland Íslendinga fyrir frystar loðnuafurðir. Var hlutdeild Japans í útflutningsverðmætum sjávarafurða rétt rúmt 1% á árinu 2020 en á árunum 2011 til 2018 var hlutdeildin að jafnaði um 4%.

Stærstu viðskipalönd með sjávarafurðir*

Í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2020**

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands*
*Stærstu lönd m.v. útflutningsverðmæti í heild á árunum 2011 til 2020.
**Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavog þröng.

Nýtt ár, sama þras

Stjórnvöld verða ávallt að hafa samkeppnishæfni sjávarútvegsfyrirtækja sem og annarra útflutningsfyrirtækja að leiðarljósi þegar álögur eru ákveðnar. Sjávarútvegur er útflutningsgrein sem þýðir að greinin getur ekki skellt kostnaðarhækkun sem bundin er við Ísland út í verð afurða sinna, líkt og fyrirtæki í samkeppni innanlands geta gert. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru peð í hinum stóra heimi og þurfa að etja kappi við fyrirtæki sem mörg hver njóta opinberra styrkja eða niðurgreiðslna. Auknar álögur á sjávarútveg, þar sem einblínt er á að aukatekjur ríkisins, geta því gengið þvert á markmið um auknar tekjur. Skert samkeppnisstaða sjávarútvegs dregur úr fjárhagslegu svigrúmi fyrirtækja til þess að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar sem kemur niður á verðmætasköpun. Slík skammtímasjónarmið veikja því augljóslega skattstofna til lengri tíma.

Óhætt er að fullyrða að engin atvinnugrein á Íslandi fær eins mikla athygli og sjávarútvegur þegar hallar undan fæti hjá hinu opinbera, og umræða um skattahækkanir eða hækkanir á öðrum opinberum álögum fara á skrið. Hækkun á veiðigjaldi ber þá gjarnan á góma. Sú umræða er hins vegar oft á misskilningi byggð og stundum afvegaleidd, eins verið hefur upp á teningnum á síðustu tveimur árum, þegar fullyrt hefur verið að veiðigjald hafi lækkað á milli ára. Fjárhæð veiðigjaldsins hefur vissulega lækkað í krónum talið frá árinu 2018 þegar veiðigjaldið nam 11,3 milljörðum króna. Á árinu 2019 var fjárhæð veiðigjaldsins rúmir 6,6 milljarðar króna og á árinu 2020 um 4,8 milljarðar. Lægri fjárhæð er þó einkum komin til vegna lakari afkomu greinarinnar sem gjaldstofn veiðigjaldsins byggist á, enda skattprósentan sú sama. Er því ekki hægt að segja að veiðigjaldið hafi verið lækkað, þó vissulega sé ljóst að það hafi ekki verið nærri eins þungt í efnahagsreikningi sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum tveimur árum og það var árinu 2018.

Gjaldstofn veiðigjaldsins á árinu 2020 var einmitt byggður á afkomu ársins 2018 og því ljóst að það sjálft hafði þau áhrif að sú fjárhæð sem skilaði sér í ríkiskassann af veiðigjaldinu í fyrra var lægri en ella. Afkoma sjávarútvegsfyrirtækja batnaði á árinu 2019 frá fyrra ári en fjárhæð veiðigjaldsins á yfirstandandi ári markast af því. Áætlað er að veiðigjaldið í ár verði um 7,5 milljarðar króna.

Fjárhæð veiðigjalds

Í milljörðum króna á verðlagi hvers árs og sem hlutfall af útflutningsverðmæti sjávarafurða

Heimild: Deloitte, Fiskistofa og Hagstofa Íslands

Olíuverð lækkar

Talsverð lækkun varð á olíuverði hér á landi á fyrri hluta ársins 2020. Eftir það hélst það tiltölulega stöðugt til nóvemberloka en tók þá að hækka. Verð á skipagasolíu var rúmlega 9% lægra að jafnaði hér á landi á árinu 2020 en árið á undan. Þá lækkun má að öllu leyti rekja til þróunar á heimsmarkaðsverði, en á móti vóg lækkun á gengi krónunnar auk þess sem kolefnisgjaldið var hækkað í byrjun ársins. Þrátt fyrir að um ágætis lækkun hafi verið að ræða á olíuverði hér á landi var hún ekkert í líkingu við þá lækkun sem varð á heimsmarkaðsverði á hráolíu. Í janúar var meðalverð á tunnu af Brent hráolíu um 63,8 Bandaríkjadalir en í apríl var verðið komið niður í tæpa 26,9 dali, sem er 58% lækkun. Lækkunin endurspeglaði fyrst og fremst minnkandi eftirspurn sem rekja mátti til aðgerða sem stjórnvöld um heim allan gripu til vegna útbreiðslu COVID-19. Olíuverð hækkaði svo á ný í kjölfar aukinnar eftirspurnar þegar slakað var á sóttvarnaraðgerðum víða um lönd snemma sumars, auk þess sem helstu olíuframleiðendur drógu úr framleiðslu. Heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu var að jafnaði um þriðjungi lægra á árinu 2020 en 2019.

Verð á skipagasolíu og alþjóðlegt olíuverð

Meðalverð á mánuði í USD og ISK

Heimild: Seðlabanki Íslands og Skeljungur

Olíukostnaður er annar stærsti kostnaðarliður í rekstri útgerða á eftir launum og því ljóst að olíuverðslækkun hefur jákvæð áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu kemur þó einnig við rekstrarskilyrði samkeppnisaðila og hefur því ekki áhrif á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Hið sama gildir ekki um álagningu af hendi hins opinbera. Kolefnisgjald hér á landi var hækkað um 10% í ársbyrjun 2020 og hafði það þá verið hækkað um tæp 300% frá því það var upphaflega lagt á árið 2010. Fjárhæð gjaldsins á árinu nam 10% af lítraverði á skipagasolíu, án virðisaukaskatts, og hefur vægi þess aldrei áður verið hærra. Það er nokkuð ljóst að þessi skattheimta kemur niður á samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja því í mörgum löndum, ef ekki flestum, nýtur fiskiskipaflotinn undanþága frá eldsneytissköttum. Markmið kolefnisgjaldsins, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og flýta orkuskiptum er vissulega göfugt. En spurningin er hvort markmiðið falli ekki um sjálft sig þegar gjaldið grefur undan samkeppnishæfni. Það ber ávallt að hafa í hug að útflutningsgreinar geta ekki lagt innlendar kostnaðarhækkanir ofan á afurðaverð. Hækkun gjaldsins rýrir afkomu íslensku fyrirtækjanna og þar með svigrúm þeirra til að fjárfesta í umhverfisvænni tækjum og búnað.

Kolefnisgjald á skipagasolíu

Krónur á lítra og sem hlutfall af verði á skipagasolíu

Heimild: Alþingi, Hagstofa Íslands og Skeljungur
*Gögn um verð á skipagasolíu ófáanleg fyrir 2010-2012. Nálgað með því að afturreikna verðið m.v. þróun á díselolíuverði í vísitölu neysluverðs.

Samkeppnisstaða batnar á mælikvarða raungengis

Raungengi íslensku krónunnar lækkaði þriðja árið í röð á árinu 2020, og náði sínu lægsta gildi frá árinu 2015, bæði á mælikvarða hlutfallslegs verðlags og launakostnaðar. Raungengi á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar endurspeglar hvernig launakostnaður á Íslandi þróast í samanburði við launakostnað í helstu viðskiptalöndum, mælt í sömu mynt. Í fyrra lækkaði raungengi á þann kvarða um tæp 9% á milli ára og nemur samanlögð lækkun þess rúmlega 18% frá árinu 2017. Samkeppnisstaða útflutningsgreina hefur því batnað þó nokkuð á tímabilinu. Lækkun raungengisins á árinu 2020 var einkum vegna 10% lækkunar á nafngengi krónunnar, en á móti vóg rúmlega 1% hækkun á launakostnaði hér á landi umfram launakostnað í helstu viðskiptalöndum. Það að launakostnaður sé að hækka meira hér á landi en í helstu viðskiptalöndum er gömul saga og ný. Á Íslandi hefur það verið regla, fremur en undantekning, að laun hækki langt umfram laun í okkar helstu samkeppnislöndum og jafnframt umfram það sem samrýmist aukinni framleiðni í landinu. Þessi staðreynd dregur augljóslega úr samkeppnishæfni útflutningsgreina hér á landi, að öðru óbreyttu.

Raungengi miðað við hlutfallslega launakostnað

Breyting á milli ára (%)

Heimild: Seðlabanki Íslands

Launakostnaður er stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Launakerfi sjómanna byggist á hlutaskiptum aflaverðmætis á milli sjómanna og útgerða og haldast laun þeirra þar með í hendur við tekjur sjávarútvegsfyrirtækja. Hið sama á ekki við um laun í landi sem hafa vegið rúmlega 40% af launakostnaði í sjávarútvegi á undanförnum árum. Þó stendur íslenskur sjávarútvegur vel að vígi í samanburði við önnur lönd, hvað framleiðni varðar, ólíkt öðrum atvinnugreinum hér á landi. Aukin framleiðni er þó síður en svo ókeypis enda krefst hún fjárfestinga í tækjum og búnaði.

Í nýrri tilraunatölfræði Hagstofunnar, sem leit fyrst dagsins ljós í fyrrasumar, má sjá staðgreiðsluskyldar launagreiðslur eftir atvinnugreinum. Þær tölur ná aftur til ársins 2008 og innihalda stærstan hluta launatekna. Þar sést að staðgreiðsluskyldar launagreiðslur á hvern starfsmann hafa verið hæstar í fiskveiðum af öllum atvinnugreinum, á hverju einasta ári, eins langt aftur og tölur Hagstofunnar ná. Á árinu 2020 voru þær 113% hærri en að meðaltali í hagkerfinu samanborið við 109% árið áður og 92% árið 2018. Það kemur heim og saman við þróunina á gengi krónunnar á tímabilinu, en eftir því sem gengi krónunnar er veikara er munurinn þarna á milli meiri. Hér ber þó að halda til haga að staðgreiðsluskyldar launagreiðslur taka ekki tillit til vinnustunda sem að baki liggja og vafalaust yrði munurinn þarna á milli talsvert minni ef það væri gert. Engu að síður bendir þessi mikli munur til þess að launagreiðslur til sjómanna yrðu enn þær hæstu þótt leiðrétt væri fyrir vinnustundum.

Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur* á mánuði á hvern launþega í fiskveiðum

Í þúsundum króna

Heimild: Hagstofa Íslands
*Ekki tekið tillit til vinnutíma eða hefðbundinna launatengdra gjalda

Laun sjómanna þróast ekki í takt við laun flestra annarra launamanna í landinu. Hin hefðbundna launavísitala Hagstofunnar er því gagnslítil til þess að segja nokkuð til um þróun launa í fiskveiðum. Hins vegar er veruleg fylgni á milli ofangreindra launagreiðslna í fiskveiðum við verðvísitölu sjávarafurða, því bæði afurðaverð og gengi krónunnar koma við sögu, eins og bersýnlega má sjá á myndinni hér fyrir neðan. Vissulega koma aðrir þættir einnig við sögu, sem hafa áhrif á þessar launagreiðslur sjómanna, eins og til dæmis aflamark. Það kann að hafa haft áhrif að launagreiðslur til sjómanna hafa heilt yfir hækkað meira á tímabilinu, sem hér um ræðir, en verðvísitala sjávarafurða.

Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur* í fiskveiðum og verðvísitala sjávarafurða

Vísitölur þar sem 2008=100

Heimild: Hagstofa Íslands
*Ekki tekið tillit til vinnutíma eða hefðbundinna launatengdra gjalda.

Seglum hagað eftir vindi

Þegar litið er á tölur fyrir árið 2020 í heild má segja að vel hafi tekist til í sjávarútvegi. Jafnframt varð útkoman mun betri en á horfðist í fyrstu þegar faraldurinn skall á. Er nærtækast að nefna að í fyrstu hagspám sem birtar voru eftir að áhrifa faraldursins fór að gæta, var gert ráð fyrir einum mesta samdrætti í sjávarútvegi í nær fjóra áratugi. Sú varð ekki raunin og fjarri því, sem betur fer.

Vægi sjávarafurða í útflutningstekjum þjóðarbúsins af vöru- og þjónustuviðskiptum var 27% á árinu 2020 og hefur það ekki verið hærra frá árinu 2009. Aukin hlutdeild er í sjálfu sér ekkert fagnaðarefni enda kom hún ekki til af góðu; einkum vegna verulegs samdráttar í tekjum annarra mikilvægra útflutningsgreina, sér í lagi ferðaþjónustu. Það er þó ánægjulegt að sjávarútvegsfyrirtækjum gekk betur að veiða, vinna og koma afurðum á markað á árinu en björtustu spár höfðu reiknað með.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ljóst að styrkur þess skipulags sem greinin býr við og þrautseigja og áræðni stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja skipti sköpum í erfiðu árferði. Heilt yfir er samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja ekki upp á marga fiska þegar kemur að opinberri álagningu eða launum og tengdum gjöldum. Það sem vinnur hins vegar með íslenskum sjávarútvegi í alþjóðlegum samanburði er fiskveiði-stjórnunarkerfið. Hryggjarstykkið og grundvallarmarkmið þess er að stuðla að efnahagslegum ávinningi þjóðarbúsins með sjálfbærni að leiðarljósi. Vegna markmiða um sjálfbærni, er ljóst að ekki verður gengið á fiskistofna umfram það sem þeir þola, samkvæmt bestu vísindalegu ráðgjöf hverju sinni. Það þýðir að ekki er hægt að auka verðmætin með því að veiða sífellt meira. Það verður best gert með fjárfestingum, auknum gæðum, nýsköpun og markaðsstarfi. Kerfið hvetur einfaldlega fyrirtæki til þess að reyna að kreista hverja krónu úr hverju kílói sem dregið er úr sjó. Það er því innbyggður hvati í íslenska kerfinu til að fjárfesta enda er það lífsspursmál fyrir fyrirtækin til þess að viðhalda samkeppnishæfni.

Frá því að upphafleg lög um stjórn fiskveiða frá árinu 1990 tóku gildi hefur fjárfesting í skipum og vinnslum aldrei verið meiri en á undanförnum árum. Hún skilar sér í aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi þar sem fullvinnsla á afurðum á sér að langmestu leyti stað heima fyrir. Sú ríka áhersla sjávarútvegsfyrirtækja, að vera búin allra nýjasta tækjabúnaði hefur jafnframt orðið til þess að í þeim efnum stendur íslenskur sjávarútvegur í fremstu röð á heimsvísu. Það kom sér einkar vel í því ástandi sem uppi var á árinu 2020, og sýndi sig í því að tæknivæddustu fyrirtækin höfðu verulegt forskot á þau fyrirtæki sem styttra eru á veg komin. Og vert er að hafa í huga að íslenskur sjávarútvegur óskaði ekki eftir neinni fjárhagsaðstoð frá ríkinu í fyrra vegna COVID-19. Á sama tíma var keppst við að dæla fjármunum skattgreiðenda inn í sjávarútveg beggja vegna Atlantsála.

Útflutningsverðmæti vöru- og þjónustuviðskipta*

Í milljörðum króna á föstu gengi m.v. meðalgengi ársins 2020**

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
*Án útfluttra notaðra skipa og flugvéla
** Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavög þröng