Samherji_vinnsla 2.jpg

COVID-19 til sjós og lands

Veiðar og vinnsla á tímum farsóttar

Í byrjun febrúar 2020 fóru að berast fregnir af skæðri veiru sem átti upptök sín í Kína og breiddist út um ríki heims á ógnarhraða. Í lok febrúar greindist fyrsta smitið á Íslandi af völdum kórónaveirunnar (SARS-Cov-2) en veikin af völdum hennar ber nafnið COVID-19.

Smitunum fjölgaði hratt fyrstu dagana í mars og strax var gripið til þess ráðs að setja smitaða einstaklinga í einangrun. Eftir tæpar tvær vikur voru vel yfir 100 einstaklingar í einangrun og margfalt fleiri í sóttkví og lýst hafði verið yfir neyðarástandi Almannavarna.

Eins og við var að búast hafði COVID mikil áhrif á íslenskan sjávarútveg. Hér verður fyrst og fremst fjallað um viðbrögð við farsóttinni og sóttvarnaraðgerðir sem áhrif höfðu á fiskvinnslu og útgerð fiskiskipa. Einnig verður fjallað stuttlega um kjaramál þessu tengdu.

Fyrstu samkomutakmarkanir tóku gildi 16. mars 2020. Þann 13. mars gaf heilbrigðisráðuneytið út auglýsingu þar sem tilkynnt var um takmarkanir á samkomum og skólahaldi að tillögu sóttvarnalæknis. Takmarkanir fólu í sér að óheimilt var að fleiri en 100 kæmu saman í sama rými ásamt því að leitast skyldi við, eftir fremsta megni, að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli manna. Tíu dögum síðar voru takmarkanir hertar og eingöngu heimilt að hafa 20 manns í rými. Rýmri reglur giltu þó um matvöruverslanir. Einnig var fjölmörgum stöðum og fyrirtækjum gert skylt að loka vegna sérstakrar smithættu. Þann 4. maí var rýmkað í 50 manns, nema á Vestfjörðum þar sem 20 manna takmörkun var í gildi til 10. maí. Eftir það var jafnt og þétt slakað á takmörkunum enda snarfækkaði nýsmitum í maí og greindist nánast ekkert smit langt fram eftir sumri. Í ágúst voru að nýju settar 100 manna samkomutakmarkanir vegna fjölgunar á smitum og í október voru reglur hertar og 20 manna takmörkun sett. Frá nóvember og fram í miðjan janúar voru 10 manna samkomutakmarkanir sem smám saman var slakað á þar til á vormánuðum 2021 þegar smit blossuðu upp að nýju og reglur voru hertar.

MBL Fjöldi smita og fjöldatakmarkanir.jpg

Gripið til aðgerða

Þegar fyrstu smitin voru að greinast á Íslandi, í byrjun mars 2020, var faghópur öryggismála hjá samtökunum kallaður saman til að semja leiðbeiningar um smitgát og sóttvarnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Áður hafði verið sendur almennur póstur á félagsmenn þar sem vísað var í leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins. En fljótlega varð ljóst að mikilvægt var að setja saman sérstakar leiðbeiningar um smitgát og sóttvarnir fyrir greinina. Fyrstu leiðbeiningar voru sendar út á póstlista samtakanna þann 12. mars og byggðist hann á fyrirmælum Landlæknis, Almannavarna og á þeim aðgerðum sem fyrirtæki innan greinarinnar voru þegar farin að innleiða. Á þessum tímapunkti voru fyrirtæki búin að loka fyrir allar heimsóknir gesta, ásamt því að auka þrif og sprittnotkun til að minnka möguleika á að smit bærist inn á vinnustaði. Mikið af þessum ráðstöfunum voru þegar til staðar innan fiskvinnsla enda um framleiðslu matvæla að ræða og almennt mikil áhersla á hreinlæti og þrif.

Eigendur voru hvattir til að útnefna ábyrgðaraðila innan fyrirtækis sem bæri ábyrgð á að vakta tilkynningar frá yfirvöldum og upplýsa starfsmenn. Fyrir utan að hvetja til almennrar sprittnotkunar og sótthreinsunar á sameiginlegum snertiflötum var lagt til að fólk reyndi að takmarka samgang milli vinnslueininga og starfsstöðva, leyfa starfsfólki að vinna heima væri þess kostur og gera ráðstafanir í mötuneytum til að minnka smithættu. Í leiðbeiningunum var einnig bent á leiðir til að koma í veg fyrir að smit bærist um borð í fiskiskip og viðbrögð ef starfsmaður væri að koma frá útlöndum.

Samherji_vinnsla 4.jpg

Að morgni 13. mars héldu samtökin streymisfund fyrir félagsmenn þar sem ábyrgðarmenn öryggismála hjá Brim, Samherja og Þorbirni sögðu frá þeim aðgerðum sem gripið hefði verið til hjá fyrirtækjunum og ráðlögðu um framkvæmdir sóttvarna. Sama dag kynntu Almannavarnir og Landlæknisembættið upplýsingavefinn Covid.is, þar sem safnað var saman öllum upplýsingum vegna farsóttarinnar. Á þeirri síðu var meðal annars safnað sérstaklega saman efni og upplýsingum fyrir fyrirtæki og átti sú síða eftir að nýtast vel til að koma ýmsum upplýsingum til fyrirtækja í greininni. Þokkalega gekk að skipuleggja starfsemi fyrirtækja þegar fyrstu samkomutakmarkanir gengu í gildi, en þær miðuðust við 100 manns og 2ja metra reglu þar sem henni væri viðkomið. Menn voru hvattir til að reyna minnka nánd starfsfólks, fækka á vinnustað og skipta upp í hópa, nota smitvarnir (grímur og hanska) og þar fram eftir götunum.

Samkomutakmarkanir og sóttvarnarhólf

Þann 23. mars upplýstu stjórnvöld að frá og með miðnætti 24. mars tækju gildi 20 manna samkomutakmarkanir. Strax var ljóst að yrði þetta að veruleika fyrir fiskvinnslur yrði stórum hluta þeirra lokað og starfsmenn sendir heim. Hafist var handa ásamt öðrum hagsmunasamtökum að fá undanþágu frá þessum fjölda í rými. Sú undanþága fékkst með skilyrðum sem fyrirtæki urðu að uppfylla. Undanþágan náði til fyrirtækja sem töldust kerfislega og efnahagslega mikilvægar einingar. Þar undir töldust fyrirtæki í matvælaframleiðslu og þau sem tryggðu efnahagslegt öryggi ríkisins með útflutningi og var fiskvinnslunni veitt slík undanþága. Meðal skilyrða sem sett voru var 100 manna takmörkun í skilgreindum rýmum, 20 manna takmörkun í rýmum þar sem fleiri fara um eins og matsali, búningsklefa og þess háttar. Fyrirtæki skyldu setja sér skriflega áætlun og kynna fyrir starfsfólki ásamt því að fylgja eftir útgefnum gátlista stjórnvalda um órofinn rekstur fyrirtækja og framkvæmd og framfylgni. Sóttverja skyldi milli eininga, starfstöðvar sótthreinsaðar daglega og þar sem ekki yrði við komið tveggja metra fjarlægð milli starfsmanna skyldi klæðast viðeigandi búnaði til að forðast smit. Einnig var lagt til að gera skilrúm á milli ólíkra eininga til að hólfa niður og tryggja sóttvarnir. Mörg fyrirtæki fóru í viðamikla vinnu og á einni nóttu voru sett upp sóttvarnahólf og skipulagðar vinnustöðvar í vinnslum um allt land.

Skipting í sóttvarnahólf var lykilatriði til að koma í veg fyrir útbreiðslu smita og einnig að takmarka þann fjölda sem þyrfti að fara í sóttkví. Mörg fyrirtæki héldu slíku skipulagi þrátt fyrir að slakað væri á samkomutakmörkunum. Það leiddi til þess að vinnslur voru vel undirbúnar þegar smitum fjölgaði að nýju í samfélaginu í byrjun ágúst.

STOP_Hrefna_Þorbjörnin.JPG

Undanþága sem veitt var í mars 2020 hefur verið endurnýjuð með reglulegu millibili þegar samkomutakmarkanir hafa verið hertar svo að fiskvinnslan hefur getað starfað áfram.

Mikil áhersla var lögð á að fyrirtæki upplýstu starfsmenn um reglur sem giltu um skimanir og sóttkví á hverjum tíma. Sérstaklega var þetta mikilvægt þegar erlendir starfsmenn héldu í sumarfrí til heimalands síns. Í einhverjum tilfellum útveguðu fyrirtæki húsnæði þegar starfsmenn komu aftur heim þar sem viðkomandi gat dvalið meðan á sóttkví stóð.

Meðan fyrsta bylgjan gekk yfir voru leiðbeiningar til fyrirtækja uppfærðar með reglulegu millibili í samráði við faghóp öryggismála, eftir leiðbeiningum Landlæknis og þær sendar á félagsmenn. Samtökin áttu í góðu samstarfi við embætti sóttvarnalæknis sem veitti ráðleggingar og aðstoðaði eftir fremsta megni við einstök mál. Komið á fót reglulegum samráðsfundum atvinnulífs, Almannavarna og sóttvarnalæknis í lok ágúst.

Útgerð fiskiskipa

Skip eru undanþegin samkomutakmörkunum enda ljóst að slíkum takmörkunum verður ekki með góðu móti komið við um borð. Það var því fljótlega ljóst að fiskiskipaflotinn þurfti sérstakar reglur svo unnt yrði að viðhalda sóttvörnum og smitgát um borð. Einfaldar leiðbeiningar höfðu fylgt fyrstu almennu leiðbeiningum um smitgát og sóttvarnir sem sendar voru á félagsmenn en um miðjan mars voru unnar sértækar leiðbeiningar fyrir skip. Grunnurinn byggðist á leiðbeiningum frá fyrirtæki innan samtakanna, en leiðbeiningarnar voru síðan unnar áfram og endurbættar með aðstoð sjómannafélaga og embætti sóttvarnalæknis. Þær voru svo sendar til fyrirtækjanna og birtar á vef sjómannafélaganna um miðjan mars.

Leiðbeiningar um smitgát_Hrefna.JPG

Í leiðbeiningunum var farið yfir undirbúning áður en haldið var úr höfn, umgengni um borð, verklag þegar komið væri til hafnar til löndunar, viðbrögð ef grunur væri um smit um borð og fleira. Sjómenn lögðust saman á árar með útgerðum við að reyna að halda skipum smitlausum. Margar áhafnir sáu sjálfar um að koma vistum og varahlutum um borð og héldu sig heima við milli túra. Fyrirtæki breyttu róðraplönum til að einfalda og auðvelda mönnum að vinna samkvæmt leiðbeiningum.

Þrátt fyrir allar leiðbeiningar höfðu menn áhyggjur af smiti um borð, ekki síst í þeim skipum sem voru að fara langt til veiða. Til að mynda frystiskipum á leið til veiða í Barentshafi og uppsjávarskipum á kolmunnaveiðum í færeyskri lögsögu. Viðræður hófust við Íslenska erfðagreiningu um skimun og greiningu sýna áhafna sem voru á þessum skipum. Útgerðir voru í sambandi við ÍE, sem svo sá um greininguna, en starfsmenn þeirra og heilbrigðisstarfsmenn á landsbyggðinni tóku sýni sem send voru suður. Þessari framkvæmd fylgdi mikið öryggi fyrir skipverja sem voru á leið á fjarlæg mið. Skimanir lögðust af þegar kom fram á sumarið og smit hurfu.

Þann 13. mars barst fyrsta tilkynningin til Landhelgisgæslunnar um mögulegt smit um borð í íslensku fiskiskipi. Nokkrum dögum síðar var annað skip á leið í sóttvarnarhöfn með veikan skipverja. Frá miðjum mars til ársloka bárust Landhelgisgæslunni 30 tilkynningar frá íslenskum fiskiskipum[1] þar sem grunur lék á að skipverji væri með COVID-19 og skipum var siglt í land. Í sumum tilfellum var grunurinn sem betur fer ekki á rökum reistur en í öðrum voru dæmi um að öll áhöfnin væri smituð, enda aðstæður um borð slíkar að erfitt er að verjast smiti komi það upp á annað borð.

Önnur bylgjan

Um haustið þegar önnur bylgja fór af stað var ljóst að taka þyrfti upp skimanir að nýju. Eins og staðan var þá varð viðkomandi að vera með einkenni til að geta mætt í skimun. Samtökin fóru fram á það við embætti sóttvarnarlæknis að leitað yrði leiða til að sjómenn kæmust í skimun áður en haldið væri til veiða. Í októberbyrjun heimilaði Landlæknisembættið skimun á einkennalausum skipverjum hjá heilsugæslum. Skilyrði fyrir skimun var að viðkomandi væri að fara í vinnuferð sem varði lengur en fimm daga og heilbrigðisþjónusta var í meira en átta tíma fjarlægð.

Mikið var um að fyrirtæki hefðu samband við skrifstofu samtakanna og var reynt að aðstoða eftir bestu getu, bæði beint og með því að vísa á efni og upplýsingar hjá Landlæknisembættinu og Almannavörnum. Póstlisti samtakanna var nýttur til að koma upplýsingum og leiðbeiningum áleiðis en frá því að faraldurinn hófst í byrjun marsmánaðar 2020 hafa verið sendir vel yfir 5o póstar á félagsmenn vegna COVID-19.