Kjarasamningar við stéttarfélög sjómanna runnu sitt skeið á enda undir lok árs 2019 og voru kröfugerðir samningsaðila kynntar og afhentar á sameiginlegum fundi SFS og allra stéttarfélaga sjómanna í byrjun febrúar 2020. Vegna áhrifa heimsfaraldurs COVID-19 og samkomutakmarkana fóru viðræður raunar ekki af stað fyrr en haustið 2020 og í upphafi árs 2021 gagnvart mismunandi viðsemjendum.
Samninganefnd SFS skipa Ólafur Marteinsson, Ægir Páll Friðbertsson, Pétur Pálsson, Gunnþór Ingvason, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Friðrik Þór Gunnarsson, Heiðmar Guðmundsson og Jón Kristinn Sverrisson.
Ekki náðust samningar í viðræðum við sjómenn á árinu og frá upphafi árs 2021 hafa átt sér stað viðræður SFS við tvo hópa stéttarfélaga sjómanna. Félag skipstjórnarmanna og Sjómannasamband Íslands eru í samfloti í sínum viðræðum. Þá eru í samfloti Sjómannafélag Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna. Báðir hópar vísuðu kjaradeilunni til ríkissáttasemjara á fyrsta ársfjórðungi 2021 þar sem þeir töldu vonlítið um árangur af frekari samningaumleitunum. Viðræðum verður því framhaldið undir stjórn ríkissáttasemjara.
Vert er að geta þess að ágætt samstarf var á milli SFS og forystumanna stéttarfélaga sjómanna í tengslum við viðbrögð, leiðbeiningar og fyrirkomulag í tengslum við áhafnir fiskiskipa. M.a. voru útbúnar leiðbeiningar um smitgát um borð í skipum og fyrirkomulag hafnarfría tóku í mörgum tilvikum mið af ástandi mála hverju sinni.
Á árinu 2020 stefndi Sjómannasamband Íslands tveimur málum inn til Félagsdóms vegna ágreinings um túlkun á nánar tilgreindum ákvæðum kjarasamnings sem samið var um í febrúar 2017.
Þann 6. júlí 2020 var kveðinn upp dómur í fyrra máli Sjómannasambands Íslands gegn Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi vegna ágreinings um hækkun á kauptryggingu á árinu 2019. Í kjarasamningi við sjómenn frá árinu 2017 var kveðið á um að kauptrygging háseta myndi hækka úr kr. 288.168,- í kr. 326.780,- á samningstímanum. Krafa SSÍ sneri að því að 17.000 króna hækkun á hinum almenna vinnumarkaði, sem samið var um í Lífskjarasamningnum í apríl 2019, skyldi bætast að fullu við þegar umsamda 16.610 króna hækkun milli ára samkvæmt kjarasamningi SSÍ og SFS frá og með 1. maí 2019. Málatilbúnaður SSÍ byggðist á því að í kjarasamningi var kveðið á um að kæmi til „launahækkana á almennum vinnumarkaði á árinu 2019, [skyldu] samningsaðilar endurskoða kauptryggingu og kaupliði í samræmi við þær.“
Meirihluti Félagsdóms komst að þeirri niðurstöðu að taka bæri tillit til hækkunar á kauptryggingunni um kr. 16.610,- sem tók gildi 1. maí 2019 í samanburði við kr. 17.000,- hækkun samkvæmt Lífskjarasamningnum. Af þeirri ástæðu væri ekki unnt að fallast á dómkröfu SSÍ um að kauptrygging háseta skyldi hækka til viðbótar um kr. 17.000,-. SFS var því sýknað af öllum kröfum SSÍ.
Þann 16. febrúar 2021 féll sýknudómur í seinna máli SSÍ á hendur SFS. Í málinu var deilt um túlkun á orðalagi ákvæðis 1.29.1 í kjarasamningi sjómanna, þar sem kveðið var á um að útgerðum bæri að greiða 0,5% álag á skiptaverðmætishlutfall við sölu á afla til eigin vinnslu „meðan unnið [væri] að bókun um heildarendurskoðun kjarasamnings á gildistíma [þess samnings sem féll úr gildi þann 1. des. 2019]“.
SFS lýstu því yfir gagnvart viðsemjendum kjarasamninga að frá og með 1. júní 2020 yrði hætt að birta og framkvæma uppgjör samkvæmt skiptaverðmætishlutfalli með hinu umþrætta álagi og var það sömuleiðis tilkynnt félagsmönnum. SSÍ höfðaði í kjölfarið mál fyrir Félagsdómi og krafðist viðurkenningar á því að 0,5% álag á skiptaverðmætishlutfall við sölu útgerðar á afla til eigin vinnslu héldi gildi sínu þar til um annað yrði samið.
Félagsdómur komst að þeirri skýru niðurstöðu, með vísan til orðalags ákvæðis 1.29.1, sem og innbyrðis samræmis ákvæða í samningnum, að ákvæði 1.29.1 um skiptaverðmætishlutfall við sölu útgerðar á afla til eigin vinnslu hafi verið markaður tiltekinn gildistími sem hafi runnið sitt skeið á enda þegar kjarasamningar sjómanna féllu úr gildi þann 1. desember 2019.
SFS var því sýknað af kröfu SSÍ í málinu.