BS_Sundahöfn

Útflutningur á óunnum fiski

Óunninn fiskur á fordæmalausu ári

Fiskur sem fluttur er frá Íslandi, heill og óunninn, er hugðarefni margra. Skyldi engan undra, enda er um að ræða hráefni sem gæti oft og tíðum verið unnið í vinnslu hér á landi. Fyrir suma innlenda aðila eru umtalsverðir hagsmunir í húfi. Í fiskvinnslu er það ekki síst hámarksnýting á fjárfestingum í húsnæði, vélum og tækjum sem ræður endanlegri rekstrarniðurstöðu. Þá má einnig segja að framvindan í útflutningi á óunnum fiski hafi í gegnum tíðina verið mælikvarði á samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu, því útflutningur af þessu tagi hefur gjarnan sveiflast í andstöðu við þróun raungengis[1]. Þetta þarf ekki að koma á óvart, enda eru nær allar tekjur fiskvinnslna í erlendri mynt og nær allur kostnaður í íslenskum krónum. Þetta þýðir að þegar gengi krónunnar er sterkt er hlutfallslega „dýrara“ að framleiða útflutningsvörur hér á landi.

Erling A_Nr.-36.jpg

Það er gömul saga og ný að dómsdagsspár um framtíð fiskvinnslu á Íslandi eru settar fram þegar útflutningur á óunnum fiski eykst. Þá er því gjarnan haldið fram að verið sé að flytja öll verðmætin úr landi og að Íslendingar verði senn „aðeins veiðimenn“. Fiskvinnsla er auðvitað mikilvæg innlend atvinnugrein og víða burðarstólpi í atvinnulífi byggða. Því þarf ekki að koma á óvart, að mönnum bregði í brún þegar útflutningur á óunnum fiski eykst, þó svo að hingað til hafi svartsýnar spár ekki gengið eftir.

Umfang og þróun

Óunninn fiskur hefur alla tíð verið fluttur frá Íslandi í einhverjum mæli. Á árunum 1992-2020 hefur magnið alla jafna verið á bilinu 25.000-80.000 tonn, með talsverðum sveiflum þó. Hér fyrir neðan sést þróun á útflutningi á óunnum fiski á umræddu tímabili, ásamt þróun vísitölu meðalgengis (viðskiptavog þröng) frá 1998-2020. Einnig sést, eins og vænta má, nokkuð náið samband á milli gengis krónunnar og útflutnings á óunnum fiski.

Útflutningur á óunnum fiski

Í gámum og beinar siglingar (tonn)

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
* Gengisvísitalan er afturreiknuð m.v. þróunina á vísitölu gengisskráningar á árunum 1992 til 1999

Hér hefur aðeins verið rætt um magn útflutningsins, en hvert er vægið? Frá árinu 1992 til og með árinu 2020 hefur vægi þessa útflutnings legið á bilinu 5-15% af botnfiskafla í heild, en er misjafnt eftir einstaka tegundum.

Það er þó ekki aðeins íslenska krónan og samkeppnishæfni sem ákvarða hvort hagstæðara sé að flytja heilan fisk út, heldur einnig margir aðrir þættir, til dæmis líffræðilegir og markaðstengdir. Gott dæmi þess fyrrnefnda er ýsan – ýsa getur verið af mjög breytilegri stærð, en svo kölluð smáýsa hentar illa til verkunar og verðið getur verið lágt. Þegar mikið er um smærri ýsu í afla má leiða líkur að því að útflutningur á óunninni ýsu sé meiri. Þetta á sömuleiðis við þegar ýsukvótinn er mjög stór, eins og var tilfellið í kringum árið 2008. Þannig var hlutdeild ýsuafla, sem fór óunninn út, á bilinu 10-30% á tímabilinu 1992-2020. Svipaða sögu er að segja um margar aðrar tegundir, eins og ufsa, karfa og ýmsa flatfiska. Ýmist henta þær einfaldlega illa til vinnslu eða lágt verð leiðir til þess að það borgar sig ekki að vinna þær hér á landi umfram heilfrystingu eða hausun.

Allt aðra sögu er þó að segja af þorskinum. Þorskurinn er sú tegund sem Íslendingar veiða hvað mest af, og jafnframt sú tegund sem skapar mestu tækifærin til verðmætasköpunar í fiskvinnslu. Áhyggjur innlendra aðila beinast því eðli máls samkvæmt einkum að þorski þegar óunninn fisk ber á góma. Á tímabilinu 1992-2020 var árlegur útflutningur á óunnum þorski á bilinu 2.000-16.500 tonn, sem var um 1-6% af heildarafla þorsks ár hvert. Það er því óhætt að fullyrða að útflutningur á óunnum þorski hefur, í gegnum tíðina, ekki verið umfangsmikill í hinu stóra samhengi. Að því sögðu má þó ekki vanmeta umfangið í samhengi einstakra fiskvinnslna, sem jafnvel reiða sig á framboð á innlendum fiskmörkuðum. Margar af stærri fiskvinnslum landsins vinna aðeins fáein þúsund tonn af þorski á ári, og því getur verið um að ræða mikið magn sem fer óunnið út, séð frá sjónarhóli einstakra fyrirtækja.

Eðlisbreyting á undanförnum árum?

Íslenska krónan veiktist mjög á árunum eftir fjármálahrunið árið 2008. Í þeim aðstæðum varð töluvert „ódýrara“ (í erlendri mynt) að vinna fisk innanlands. Af þeim sökum dró jafnt og þétt úr útflutningi á óunnum fiski, þar til að hann náði lágmarki árið 2014 í um 24.000 tonnum. Eftir því sem ferðamönnum fjölgaði eftir árið 2012 fór krónan að styrkjast og stóð styrkingin til ársins 2017. Á sama tímabili jukust nafnlaun og tengdur kostnaður ár frá ári. Þá tók útflutningur af óunnum fiski, nokkuð fyrirsjáanlega, að aukast aftur. Á allra síðustu árum hefur þó vakið athygli að útflutningur á óunnum fiski hefur ýmist aukist eða staðið í stað, þrátt fyrir talsverða veikingu krónunnar frá 2017. Þá er eðlilegt að spyrja, er um að ræða eðlisbreytingu í útflutningi á óunnum fiski og má búast við áframhaldandi aukningu á næstu árum?

Erling_Nr.-67.jpg

Ómögulegt er að fullyrða nokkuð um það með vissu, enn sem komið er. Til þess er tímabilið of stutt. Það má þó benda á tiltölulega nýja og áhugaverða þróun á allra síðustu árum: Tilkoma innlendra fyrirtækja sem kaupa mikið af fiski af innlendum fiskmörkuðum, ýmist á uppboðum eða í beinni sölu sem miðlað er í gegnum fiskmarkaðinn, og selja til erlendra viðskiptavina. Það sem hefur einna helst vakið athygli við þessi kaup er kílóaverðið sem þessir umboðssalar geta boðið, sem er oft og tíðum mun hærra en það sem flest innlend fyrirtæki geta boðið þannig að kaupverðið sé rekstrarlega forsvaranlegt. Í sumum tilvikum hefur kílóaverðið fyrir heilan þorsk á fiskmarkaði verið hærra en fengist hefur fyrir kílóið eftir vinnslu hér innanlands. Það er í raun ekki augljóst hvernig svo megi vera eða hvort að þetta sé eitthvað sem megi búast við til frambúðar. Áhugavert er í þessu samhengi að skoða neðangreinda töflu, sem sýnir sölu á þorski á innlendum fiskmarkaði á tímabilinu 2017-2021.

Óslægður þorskur

Tonn 2017 2018 2019 2020 2021*
Heildarsala 38.741 38.493 33.070 38.270 9.241
Uppboðssala 34.196 35.875 30.991 33.483 7.985
Miðlun 4.545 2.619 2.080 4.787 1.256
Milljónir kr** 2017 2018 2019 2020 2021*
Heildarsala 9.185 9.733 10.731 12.592 2.826
Uppboðssala 8.089 9.042 10.025 10.976 2.444
Miðlun 1.096 691 705 1.616 382
Heimild: Reiknistofa Fiskmarkaða * 2021 lýsir stöðunni eins og hún var þann 19.4.2021 ** Á gengi hvers árs
kr/kg** 2017 2018 2019 2020 2021*
Heildarsala 237,1 252,8 324,5 329,0 305,8
Uppboðssala 236,5 252,0 323,5 327,8 306,0
Miðlun 241,1 263,9 339,1 337,6 304,4

Slægður þorskur

Tonn 2017 2018 2019 2020 2021*
Heildarsala 10.374 9.312 7.443 11.894 4.162
Uppboðssala 8.861 8.592 6.964 8.610 3.800
Miðlun 1.513 720 479 3.284 362
Milljónir kr** 2017 2018 2019 2020 2021*
Heildarsala 2.652 2.658 2.641 4.442 1.402
Uppboðssala 2.235 2.466 2.463 3.084 1.269
Miðlun 417 192 179 1.359 134
Heimild: Reiknistofa Fiskmarkaða * 2021 lýsir stöðunni eins og hún var þann 19.4.2021 ** Á gengi hvers árs
kr/kg ** 2017 2018 2019 2020 2021*
Heildarsala 255,7 285,4 354,9 373,5 337,0
Uppboðssala 252,3 287,0 353,6 358,1 333,9
Miðlun 275,5 266,7 373,4 413,8 369,4

Á árunum 2017-2019 var framboð á þorski á markaði nokkuð stöðugt, en verð hækkuðu mjög – um 20-25% eftir að leiðrétt hefur verið fyrir um 13% veikingu krónunnar á sama tíma. Frá árinu 2017 til 2020 voru hlutfallsbreytingarnar keimlíkar í uppboðssölunni og miðluninni[1], en verðin voru almennt hærri í miðlun – sérstaklega fyrir slægðan þorsk. Endurspeglar þetta hugsanlega þá staðreynd að meirihluti þess sem farið hefur í gegnum miðlun fiskmarkaðanna, ferskt og heilt, á síðustu árum er ætlað til útflutnings.

Erling_Nr.-60.jpg

Árið 2020 var auðvitað sérstakt fyrir margra hluta sakir, en á því ári jókst magn og verð hækkaði umtalsvert á slægðum þorski á markaði, einkum í gegnum miðlun. Á sama tíma jókst útflutningur á óunnum fiski einnig, sérstaklega þorski.

Óunninn fiskur

Allar tegundir (tonn)

Heimild: Hagstofa Íslands

Óunninn fiskur

Allar tegundir (tonn)

Heimild: Hagstofa Íslands

Óunninn fiskur

Þorskur (tonn)

Heimild: Hagstofa Íslands

Óunninn fiskur

Þorskur (tonn)

Heimild: Hagstofa Íslands

Því kemur ekki á óvart að áhyggjuraddir hafi magnast upp á liðnu ári. Erfitt er að henda reiður á nákvæmlega hvað það var sem leiddi til þessara miklu hlutfallsaukninga. En leiða má líkur að því að miklar breytingar á markaðsaðstæðum vegna COVID-19, ásamt tilfallandi lokunum á nokkrum stórum fiskvinnslum, hafi spilað stórt hlutverk. Þá er áhugavert að benda á að það voru einkum tveir mánuðir (maí og september) sem báru uppi stærstan hluta af aukningunni, líkt og greina má af myndinni að ofan.

Vísbendingar eru til staðar um að aðstæður hafi breyst að einhverju leyti á þessu ári; kílóaverð á mörkuðum hafa lækkað talsvert, þrátt fyrir því sem næst óbreytt verðgildi krónunnar, og magn þess fisks sem fer í gegnum miðlun fiskmarkaðanna hefur stórlækkað. Þá benda nýjustu útflutningstölur frá Hagstofunni[1] til þess að dregið hafi nokkuð úr þessum útflutningi, ef miðað er við meðaltal mánaða frá upphafi COVID-19. Að því sögðu er staðan að sjálfssögðu síbreytileg eins og vænta má þegar um er að ræða alþjóðlega samkeppnismarkaði.

Mun meira en „bara veiðimenn“

Íslenskur sjávarútvegur hefur lagt mikið upp úr því að hér sé framleiddur gæðafiskur með sjálfbærum hætti. Í því skyni hafa mörg fyrirtæki ráðist í umfangsmiklar fjárfestingar í vélum, tækjum og ýmissi annarri nýsköpun. Á sama tíma er ljóst að samkeppnisstaða íslenskrar framleiðslu er ögn tvísýnni, einkum vegna þróunar á launum og tengdum gjöldum, sem í dag eru með þeim hæstu í heimi. Það má að sjálfsögðu efast verulega um það, að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að allur fiskur færi úr landi og að Íslendingar yrðu „bara veiðimenn“. Auk þess, er það grundvallarmarkmið í markaðssetningu og verðmæti alþjóðlegrar ímyndar íslensks sjávarútvegs, að fiskurinn sé að uppistöðu unninn hér innanlands.

Erling_A_Nr.-20.jpg

Það verður þó að teljast ólíklegt, ef ekki óhugsandi, að sú staða geti nokkurn tímann komið upp að meirihluti fisks af Íslandsmiðum verði sendur óunninn úr landi. Meginþorri íslenska aflans er unninn í fiskvinnslum sem eru vel samkeppnishæfar í alþjóðlegum samanburði og í auknum mæli tæknivæddar. Milljarðar á milljarða ofan er fjárfest í íslenskri fiskvinnslu árlega og magn útflutnings á óunnum fiski umliðin misseri er ekki úr hófi í sögulegu samhengi. Það er því mikilvægt að stigið sé varlega til jarðar ef til umræðu koma möguleg inngrip, sem væru til þess fallin að koma í veg fyrir útflutning af þessu tagi. Það verður ekki fram hjá því litið að útflutningur á óunnum fiski í einhverjum mæli er mikilvægur liður í fjölbreytni og skjótri aðlögunarhæfni atvinnugreinarinnar þegar ytri aðstæður breytast, ásamt því að vera góður mælikvarði fyrir alþjóðlega samkeppnishæfni sjávarútvegs. Að því sögðu þarf ávallt að vera á varðbergi fyrir eðlisbreytingum í þessa veru og aðstæður gætu breyst ef aukning undanfarinna ára heldur áfram. Það verður að halda vöku.