Laxaréttir.jpg

Fiskeldi

Vaxandi atvinnugrein

Margt einkenndi íslenskt fiskeldi hið sögulega ár 2020. Líkt og undanfarin ár jókst framleiðslan umtalsvert, einkanlega í laxeldi. Afleiðingar COVID fársins ollu umtalsverðum verðlækkunum mestan hluta ársins. Nýtt áhættumat vegna fiskeldis leit dagsins ljós um mitt árið og fól í sér aukningu mögulegrar framleiðslu á laxi. Árið 2020 var fyrsta heila árið sem fiskeldið starfaði eftir umtalsverðar breytingar sem urðu með nýrri löggjöf sem tók gildi um mitt árið 2019 og í lok þess árs.

Vöxtur í framleiðslu

Heildarframleiðsla á eldisafurðum nam alls 40.595 tonnum á árinu 2020. Var það aukning um 6.636 tonn frá árinu á undan. Líkt og undanfarin ár munaði mest um aukið laxeldi. Ársframleiðsla laxeldisins var 34.341 tonn og jókst um 10.382 tonn frá árinu á undan, þegar framleidd voru 26.957 tonn. Þannig jókst framleiðsla í laxeldi um 38,5 prósent á milli ára.

Eftir áralanga aukningu í bleikjueldi dróst það nokkuð saman frá fyrra ári og má rekja orsökina til erfiðari markaðsaðstæðna í fyrra af völdum COVID. Ársframleiðslan á bleikju í fyrra var 5.493 tonn en 6.322 tonn árið á undan. Sem fyrr er íslensk bleikjuframleiðsla leiðandi á alþjóðamörkuðum.

Eftir mikinn samdrátt árið 2018, jókst eldi á regnbogasilungi nokkuð á milli ára. Þannig var ársframleiðslan í fyrra 490 tonn, en 299 tonn árið 2019. Gera má ráð fyrir að á yfirstandandi ári verði aukning í framleiðslu á regnbogasilungi. Ný leyfi hafa fengist til framleiðslunnar og gætir aukinnar áherslu á eldi á regnbogasilungi.

Ein eldistegund til viðbótar er ræktuð hér á landi, Senegal flúra, hjá fyrirtækinu Stolt sea-farm á Reykjanesi. Í fyrra nam eldið 271 tonni. Frá því að fyrirtækið hóf eldi á þessum heitsjávarfiski árið 2015, hefur framleiðslan numið á bilinu 300 til 400 tonn.

Ljóst er að fram undan er stöðug og umtalsverð framleiðsluaukning á laxi. Til þess að varpa ljósi á þróun framleiðslunnar á næstu árum er nærtækast að styðjast við opinber gögn um útsett seiði, sem ætla má að komi til slátrunar tveimur árum eftir útsetningu. Sýnir reynslan að þessar forsendur hafa reynst góð vísbending um væntanlega framleiðslu á allra næstu árum. Sé byggt á þeim má ætla að framleiðsla á laxi verði sem hér segir:

  • 2021: 43.500 tonn.
  • 2022: 50.000 tonn.
  • 2023: 55.000 tonn.

Þessar tölur er fróðlegt að skoða í sögulegu ljósi. Árið 2015 nam ársframleiðslan á laxi 3.260 tonnum, árið eftir skaust hún upp í 8.420 tonn og hefur síðan vaxið árlega. Þannig má segja að laxeldið hafi tífaldast frá árinu 2015 og ef bornar eru saman framleiðslutölur ársins í fyrra við líklega framleiðslu ársins 2023 nemur aukningin um 58%.

Laxaréttur_1.PNG

Útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei meira

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 29,3 milljörðum króna á árinu 2020. Útflutningur á eldisafurðum hefur aldrei verið meiri, sama á hvaða mælikvarða er litið, það er í krónum, erlendri mynt eða tonnum. Í krónum talið er aukningin á milli ára rúmlega 17%. Aukningin var talsvert minni í erlendri mynt vegna lækkunar á gengi krónunnar, eða sem nemur um 6%.

Rúmlega 90% eldisafurða eru flutt út og hefur gengi krónunnar því veruleg áhrif á afkomu greinarinnar, líkt og aðrar útflutningsgreinar.

Aukninguna á útflutningsverðmætum í erlendri mynt á árinu 2020 má alla rekja til eldislax, en samdráttur var í öðrum tegundum eldisafurða. Jókst útflutningsverðmæti eldislax um rúm 29% í krónum talið á milli ára en tæp 15% í erlendri mynt. Fór vægi hans í 70% af útflutningsverðmætum eldisafurða á árinu, en það hefur aldrei mælst svo hátt, að minnsta kosti ekki á þessari öld. Er hér átt við hina hefðbundnu framleiðslu á eldislaxi, en ekki frjóvguð hrogn.

Útflutningsverðmæti frjóvgaðra hrogna var um 15% minna á árinu 2020 en 2019 í krónum talið, en um 23% minna þegar tekið er tillit til gengisbreytinga. Frjóvguð hrogn eru verðmæt hátækniframleiðsla, og vega talsvert mikið sé litið til útflutningsverðmæta en afar lítið í tonnum talið.

Útflutningsverðmæti silungs, sem er að langstærstum hluta bleikja, jókst um tæp 10% í krónum talið á milli áranna 2019 og 2020 en á föstu gengi mældist samdráttur upp á rúmt 1%. Útflutningsverðmæti annarra eldisafurða dróst saman um rúm 12% á milli áranna 2019 og 2020 í krónum talið en um 21% í erlendri mynt.

Ljóst er að fiskeldi vegur sífellt meira í vöruútflutningi. Í fyrra skilaði útflutningur á eldislaxi næst mestum útflutningsverðmætum af þeim fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi. Þorskur er að sjálfsögðu í fyrsta sæti. Þetta hljóta að teljast nokkur tíðindi og er í raun vandséð annað, en að hlutur laxins muni vaxa enn frekar á komandi árum.

Útflutningur á afurðum

Áhrifa COVID gætti á fiskeldi eins og flestar aðrar atvinnugreinar. Samtímis því að greinin stækkaði og efldist, bitnuðu þrengingar af völdum faraldursins býsna hart á fiskeldinu. Flutningar frá landinu gengu vel, en margs konar erfiðleikar voru við dreifingu afurða í ýmsum markaðslöndum.

Allur útflutningur á laxi og laxaafurðum til Kína stöðvaðist á árinu. Það voru mikil vonbrigði. Eins og kunnugt er búum við Íslendingar að fríverslunarsamningi við Kína, sem er það markaðssvæði sem vex hraðast í heiminum. Auk Íslands er Chile eina laxeldislandið sem hefur fríverslunarsamning við þetta næst stærsta hagkerfi í heiminum, sem væntanlega verður það stærsta innan fárra ára. Þó útflutningur til Kína hafi ekki náð öruggri fótfestu, enn sem komið er, felast þar mikil tækifæri og skapar okkur verðmætt samkeppnisforskot. Lokun Kína átti sinn þátt í að auka framboð á aðra markaði, svo sem þann bandaríska og evrópska. Þetta gerðist á sama tíma og mikill samdráttur á veitingahúsamörkuðum um víða veröld dró úr eftirspurn. Ljóst er að þetta hafði veruleg áhrif og birtist í umtalsverðri verðlækkun.

Að undanförnu hafa birst vísbendingar um að verð á laxaafurðum sé að hækka að nýju. Til lengri tíma eru horfur góðar. Spurn eftir laxi hefur aukist árlega um árabil. Vaxandi kaupmáttur á heimsvísu styður þá framvindu, ekki síst á markaðssvæðum þar sem eftirspurn hefur verið minni.

Aðeins örlítill hluti framleiðslunnar fer til neyslu hér innanlands. Hlutfall bleikjuframleiðslunnar sem fer til innanlandsneyslu hefur hins vegar verið mun hærra. Sérstaklega á þetta við minni framleiðendur. Bylgja ferðamanna sem reis hæst hér á landi árið 2019, skapaði mikla spurn eftir bleikju og ýmsir framleiðendur reiddu sig á innlenda markaðinn. Hrun í fjölda ferðamanna hafði því mjög slæm áhrif á minni bleikjufyrirtæki.

Nýtt áhættumat

Með nýjum lögum um fiskeldi á árinu 2019 var meðal annars lögfest ákvæði um svokallað áhættumat erfðablöndunar. Með því er lagt mat á það magn frjórra eldislaxa sem strjúka úr eldi í sjó og vænta má að komi í ár þar sem villta laxastofna er að finna og metið er að erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, verði það mikil að tíðni arfgerða villtra stofna breytist og valdi versnandi hæfni stofngerða þeirra. Markmið matsins er að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum. Slíkt heildstætt mat er óþekkt í öðrum löndum.

Laxar.jpg

Hafrannsóknastofnun hafði raunar framkvæmt slíkt mat á árinu 2017 án sérstakrar lagastoðar, en í nýjum lögum var gert ráð fyrir endurskoðun á því. Nýtt og endurskoðað mat, sem staðfest var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, 5. júní 2020, fól í sér talsverða aukningu á leyfilegu framleiðslumagni. Meginniðurstaða þess er að leyfilegt verði að ala allt að 106 þúsund tonna lífmassa. Þar með má segja að skapaður hafi verið rammi um umfang laxeldis í sjókvíum hér við land á næstu árum. Heildarframleiðslan mun svo ráðast af því hversu vel gengur að nýta lífmassann. Því má ætla að fiskeldi muni vaxa mjög verulega á allra næstu árum og að fiskeldi verði ein af þýðingarmestu stoðum vöruútflutnings okkar í náinni framtíð.

Kveðið er á um það í nýju fiskeldislögunum að skipa skuli nefnd þriggja óvilhallra vísindamanna á sviði fiskifræði, stofnerfðafræði og/eða vistfræði til að rýna aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun notar við mat á burðarþoli og við gerð áhættumats. Það var gert og afraksturinn hefur nú litið dagsins ljós. Þar er dregin upp athyglisverð mynd af þeirri ströngu varúðarnálgun sem beitt er hér við ákvörðun á leyfilegu eldismagni. Hér eru nefndir til sögunnar nokkrir þættir:

  • Áhættumatið leiðir í ljós að hættan á blöndun eldisfisks við villta laxastofna er bæði lítil og staðbundin.
  • Í áhættumatinu er gert ráð fyrir að hlutfallslegar sleppingar séu meiri en áætlað er í Noregi. – „Mögulegt ( er) að strokutíðnin sem Hafrannsóknastofnun notar í líkani sínu sé tiltölulega há.“
  • Fiskur sem sleppur snemma á lífsferlinum (snemmbúið strok) er talinn geta verið skæðari gagnvart villtum fiski. Nýjar rannsóknir sýna að snemmbúið strok hefur minnkað mikið.
  • Athyglisverð er þessi ábending í áhættumatsskýrslunni: „Endurkoma á norsk ættuðum eldislaxi sé lægri á Íslandi en í Noregi vegna erfðafræðilegs munar sem kemur niður á rötunarhæfni.“
  • Þegar metin eru möguleg áhrif strokufiska úr fiskeldi á villta laxastofna er stuðst við mun strangari reglur á Íslandi en í Noregi. Viðmiðunartalan hér er 4% en allt að 10% í Noregi.
  • Hlutfall strokufiska úr fiskeldi sem gengur í ár, er um fimmfalt hærra í Noregi en á Íslandi.
  • „Líklegasta skýringin er sú að almennt er fjarlægð milli eldiskvía og laxveiðiáa mun meiri á Íslandi en í Noregi vegna þess að á Íslandi eru stór svæði með bestu laxveiðiánum þar sem bannað er að ala lax. Önnur ástæða kann að vera erfið skilyrði fyrir eldislax á Íslandi vegna lægri sjávarhita en í Noregi.“
  • Fá og lítil dæmi voru um að fiskur í sjókvíum hafi gengið í íslenskar ár á síðustu tveimur árum. Sex laxar árið 2019 og þrír árið 2020, þar af aðeins einn í eiginlega laxveiðiá (Ytri Rangá, 2019).

Austfirðir_Laxar.jpg

Áframhaldandi uppbygging

Fiskeldi, einkanlega laxeldi, hefur vaxið verulega á undanförnum árum og er nú orðið markverður hluti vöruútflutnings og mikilvægur þáttur í þjóðarbúskapnum og atvinnusköpun. Ekki síst á landsbyggðinni.

Í nýrri skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins KPMG, sem unnin var fyrir Vestfjarðastofu, um áhrif fiskeldis á Vestfjörðum, er lagt mat á framtíðarmöguleika miðað við fyrirliggjandi áhættumat sem gerir ráð fyrir 64.500 tonna lífmassa á Vestfjörðum. Engin ástæða er til að ætla annað en að áhrifin yrðu sams konar á Austfjörðum, en þar gerir áhættumatið ráð fyrir um 42 þúsund tonna lífmassa. Í skýrslunni kemur meðal annars eftirfarandi fram:

  • Áætlað er að fjöldi beinna starfa á Vestfjörðum verði allt að 640
  • Áætlað er að fjöldi óbeinna/afleiddra starfa á Vestfjörðum verði allt að 390
  • Áætlað er að allt að 1.850 íbúar gætu byggt afkomu sína á fiskeldi að einhverju leyti
  • Áætlað söluverðmæti afurða er um 46 milljarðar króna
  • Áætlað skattspor þegar framleiðsla er í hámarki yrði 2,2 milljarðar króna, þar af nema greiðslur til sveitarfélaga 1,1 milljarði

Ljóst er að fiskeldi, einkanlega laxeldi, mun vaxa á næstu árum. Eftir tvö ár verður laxeldisframleiðslan orðin um 55 þúsund tonn, sem er átjánföldun á magni á áratug. Innan fárra ára verður framleiðslan væntanlega komin að þeim mörkum sem áhættumatið setur, 106 þúsund tonn af lífmassa. Ætla má að eldi á regnbogasilungi muni aukast eftir mikinn samdrátt á síðustu árum. Þá hefur bleikjueldi allar forsendur til þess að vaxa með svipuðum hætti á næstu árum.

Það er því ljóst að fiskeldi á Íslandi verður á næstu árum ný meginstoð í íslenskri sjávartengdri framleiðslu og þýðingarmikill þáttur í efnahagsstarfsemi Íslands, líkt og við þekkjum hjá öðrum þjóðum við Norður–Atlantshaf.