DSC00238 (2).JPG

Loðnumæling og veiði

Dyntótt er hún

Loðnumælingar á nýafstaðinni vertíð voru með fordæmalausum hætti hvað varðar umgjörð, atburðarás og umfang. Ekki síst vegna frumkvæðis og áræðni loðnuútgerðanna lánaðist að ná góðum árangri sem leiddi til þess að á loðnuvertíð sköpuðust upp undir 25 milljarða króna útflutningsverðmæti.

Eins og mönnum er kunnugt hafa loðnuútgerðirnar sameiginlega staðið straum af kostnaði við loðnumælingar að stórum hluta undanfarin ár. Fyrir liggur að Hafrannsóknastofnun býr ekki yfir þeim skipakosti sem þarf til loðnumælinga samkvæmt því verklagi sem áskilið er í aflareglu loðnuveiða frá árinu 2015. Því þarf að kalla til veiðiskip sem útbúin eru með fiskleitartækjum af réttri gerð ásamt nauðsynlegum tölvubúnaði til verksins.

Snemma árs 2020 var gengið frá samkomulagi SFS við Hafrannsóknastofnun um að framvegis myndi Hafró standa straum af kostnaði við loðnumælingarnar, enda verkefnið á verksviði stofnunarinnar. Þegar til kom ákváðu stjórnvöld að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilboðsfrestur var til 4. desember sl. og var ekki gert ráð fyrir að hefja mælingar fyrr en 15. janúar, en sú tímasetning var talin vænlegust í ljósi þess að aðeins yrði um eina loðnumælingu að ræða. Ekki væri að vænta hrygningarloðnu á hafsvæðið í neinum mæli fyrr.

Eins og svo oft áður tók loðnan nú upp á því að koma mönnum á óvart og láta hjá líða að spila með áformum stjórnvalda. Um og eftir miðjan nóvember tóku að berast fréttir frá togurum á norðurmiðum af stórri loðnu í miklum mæli í þorskmögum. Ábendingum um þetta svöruðu vísindamenn Hafró með því að benda á að nú væri risastór árgangur ungloðnu að alast upp og því ætti umtalsvert magn loðnu ekki að koma mönnum á óvart. Ekki náði þessi umræða lengra, enda erfitt um vik þar sem enn var opið útboðsferli og tilboða óskað. Við þessar aðstæður fór Síldarvinnslan á Neskaupstað á stjá og sendi grænlenska skipið Polar Amaroq þann 22. nóvember til að kanna svæðið fyrir norðan. Var sá leiðangur skipulagður í samráði við loðnusérfræðinga Hafró og tilskilinna rannsóknaleyfa aflað. Í ljós kom að um hrygningarloðnu var að ræða.

Þegar til kom bárust engin tilboð í loðnumælingarverkefnið. Engin frekari áform voru þá uppi um mælingar fyrr en síðar. Við þær aðstæður ákvað SFS að styrkja Hafrannsóknastofnun um 65 milljónir króna til loðnumælingar í desember, 60 milljónir vegna skipakostnaðar og 5 milljónir til greiðslu launakostnaðar vegna starfsmanna Hafró. Loðnuútgerðirnar stóðu straum af þessum kostnaði.

Mæling hefst

Loðnumæling hófst svo þann 6. desember og lauk í brælu þann 11. desember. Þátt tóku veiðiskipin Kap, Iivid, Jóna Eðvalds og Ásgrímur Halldórsson. Hafís hamlaði yfirferð á Grænlandssundi, en loðna var við ísröndina þar. Niðurstaðan varð sú að út var gefið 22 þúsund tonna aflamark sem fór til erlendra aðila á grunni alþjóðasamninga.

Þegar þarna var komið sögu höfðu menn fengið allt aðra mynd af útbreiðslu og tímasetningu hrygningargöngunnar en vænst hafði verið og voru frekari áform því endurskoðuð í ljósi þess. Í framhaldinu voru farnir nokkrir leiðangrar til könnunar og mælinga, bæði stórir og smáir, að mestu á kostnað Hafró.

Vilhelm2.jpg

Næsta loðnumæling hófst þann 4. janúar síðastliðinn og lauk þann 8. janúar í brælu. Enn hamlaði ís á Grænlandssundi. Þátt tóku rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og veiðiskipin Ásgrímur Halldórsson, Aðalsteinn Jónsson og Polar Amaroq.

Þann 16. janúar bárust fréttir frá togurum um loðnu á Seyðisfjarðardýpi. Um kvöldið báðum við uppsjávarveiðiskipið Víking AK að skoða þetta á landleiðinni; hann var í loðnu um nóttina á 50 sjómílna kafla í kantinum við Hvalbak og norður eftir og enn þegar hann hélt í land á Vopnafirði. Í kjölfarið var ákveðið að skoða þetta betur og mæla, enda ekki eftir neinu að bíða og fremsta loðnan komin býsna nálægt slóð þar sem hún á það til að hverfa af mælislóð og út í hlýja sjóinn. Tvö kvörðuð uppsjávarveiðiskip fóru til mælinga; Ásgrímur Halldórsson og Polar Amaroq, ásamt veiðiskipinu Bjarna Ólafssyni sem leitaði og afmarkaði mælisvæðið. Þann 19. janúar var þessum áfanga lokið vegna brælu og fundin skil í loðnuútbreiðslunni út af norðanverðum Austfjörðum þar sem hægt væri að taka upp þráðinn eftir brælu.

Loksins loðna til Íslendinga - og enn var mælt

Þann 22. janúar var gefið út aukið aflamark loðnu og komu þá loks 15.050 tonn í hlut okkar skipa. Þann 24. janúar var síðan gefin út leiðrétting og var heildaraflamark þá orðið 61.000 tonn og af því komu 20.150 tonn til okkar skipa.

Þann 26. janúar var síðan loðnumælingu framhaldið með þátttöku fjölmargra skipa, en þátt í henni tóku rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og veiðiskipin Ásgrímur Halldórsson, Bjarni Ólafsson, Hákon, Aðalsteinn Jónsson, Jóna Eðvalds og Börkur. Þessi loðnumæling var augljóslega fordæmalaus hvað umfangið varðar og gekk vel nema hvað enn hamlaði ís nokkuð á Grænlandssundi. Mælingunni lauk í lok janúar. Þessar mælingar seinni partinn í janúar teknar saman leiddu svo til mats á stærð hrygningarstofns loðnu upp á 650 þúsund tonn og lokaráðgjafar um 127.300 tonna heildarafla og fór hlutur Íslands úr rúmlega 20.000 tonnum í tæplega 70.000 tonn.

Eftir þetta bárust af og til fréttir frá fiskiskipum af loðnu hér og þar. Þannig lagði rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson lykkju á leið sína við aðrar rannsóknir þann 22. febrúar til að kanna fréttir af loðnu á hafsvæði suður og austur af Grímsey. Ekki varð séð að um umtalsvert loðnumagn væri að ræða. Ekki kom til frekari loðnumælinga eða útgáfu aflamarks til loðnuveiða á þessari vertíð.

Samvinna og þrautseigja

Þegar upp er staðið má segja að vel hafi tekist til og margir, jafnt í atvinnugreininni sem hafrannsóknamenn, áttu þar stóran hlut að máli. Jafnframt er ljóst að frumkvæði og áræðni loðnuútgerðanna skipti sköpum.

Af reynslunni á þessari vertíð og þeim næstu á undan höfum við lært að tímarnir hafa breyst og setja verður mikinn kraft í loðnumælingar á meðan veður leyfir á milli bræla og með mörgum skipum ef unnt á að vera að ná mælingu sem gefur kvóta innan þess ramma sem nýja aflareglan setur. Enn fremur höfum við enn og aftur komist að því sem áður var vitað, að ekki er hægt að gefa sér neitt fyrir fram um það hvar og hvenær hrygningarloðnan birtist okkur það og það árið.